Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul

Almennar fréttir - 14.09.2017

Ályktun stjórnar VR um skattleysi lægstu launa

Stjórn VR ályktaði um skattleysi lægstu launa á stjórnarfundi félagsins 13. september 2017.

Fjárhæð persónuafsláttar fylgi launavísitölu og það verði bundið í lög.

Stjórn VR beinir þeim tilmælum til stjórnvalda að endurskoða fjárhæð persónuafsláttar til samræmis við launavísitölu frá árinu 1990 í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018. Í komandi kjarasamningum er mikilvægt að horft sé til framtíðar og launafólki verði tryggður stöðugleiki og raunveruleg kaupmáttaraukning. Mikilvægur þáttur í því er að festa með lögum að persónuafsláttur fylgi launavísitölu.

Markmið okkar er að lægstu laun verði skattfrjáls með hækkun persónuafsláttar og sem mun auka kaupmátt lægstu launa og millitekjuhópa umtalsvert. Hækkun persónuafsláttar verður ein af aðalkröfum félagsins fyrir komandi kjarasamninga.

Stjórn VR