Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Ragnar Vr Portret 2019 5

Almennar fréttir - 20.01.2020

Besti vinnustaðurinn

Um þessar mundir er VR að vinna könnun meðal félagsmanna sinna um hvar sé best að vinna. Könnunin hefur verið gerð í rúmlega 20 ár og hafa hundruð fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði tekið þátt með alla sína starfsmenn enda mikilvægt að allir hjá fyrirtækinu fái tækifæri til að taka þátt en þannig fæst niðurstaða sem fyrirtækin geta nýtt til umbóta ef þörf krefur eða viðhalda góðum árangri. Nánari upplýsingar má finna á vr.is/2020

Hugmyndafræðin að baki Fyrirtæki ársins

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins er viðhorf starfsmanna til lykilþátta í starfsumhverfi vinnustaðarins metið. Könnunin er vettvangur fyrir félagsmenn til að koma skoðunum sínum á framfæri og láta stjórnendur vita af því sem vel er gert og hvað betur má gera. Niðurstöðurnar eru stjórnendum hafsjór upplýsinga og hagnýtur leiðarvísir um hvort úrbóta sé þörf og hvar. Þær sýna ekki einungis hver staða fyrirtækisins er í augum starfsmanna heldur einnig hver staða þess er í samanburði við önnur fyrirtæki á vinnumarkaði.

Virkjum mannauðinn

Hugmyndafræðin sem býr að baki Fyrirtæki ársins er sú að innra starfsumhverfi fyrirtækja hafi mikil áhrif á afkomu þeirra ekki síður en ytri rekstrarskilyrði. Þau fyrirtæki sem virkja mannauð sinn illa eða alls ekki geti hvorki fært sér hagstæð ytri skilyrði í nyt né brugðist við neikvæðum rekstrarskilyrðum eða utanaðkomandi áföllum.
Þetta má mæla á marga vegu. Í könnun VR byggja niðurstöðurnar á viðhorfi til níu lykilþátta: stjórnunar, starfsanda, launakjara, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækis, jafnréttis og ánægju og stoltis. Þessir þættir endurspegla það traust sem ríkir í samskiptum innan fyrirtækisins, hversu stolt eða hreykið starfsfólkið almennt er af starfi sínu og fyrirtækinu sem það starfar hjá, þá virðingu sem yfirmenn bera fyrir starfsfólki sínu og það andrúmsloft sem ríkir á vinnustaðnum.

Neytendavakning

Það má einnig færa fyrir því sterk rök að hin mikla neytendavakning sem átt hefur sér stað undanfarin ár sé til marks um enn meira mikilvægi þess að fyrirtæki láti sér gott starfsumhverfi og orðspor varða. Aðrir þættir eins og há starfsmannavelta og brottfall af vinnumarkaði vegna álagstengdra kvilla hafa verið gríðarlega kostnaðarsöm fyrir fyrirtækin og samfélagið allt.

Könnunin segir hvað þarf að gera betur

Fyrirtæki ársins gerir stjórnendum kleift að nálgast innra starfsumhverfi sitt með markvissum og árangursríkum hætti. Í fyrsta lagi eru niðurstöðurnar áreiðanlegt mælitæki á frammistöðu fyrirtækisins sem vinnustaðar. Þær segja til um hvort og þá hvaða vanda er við að etja og um leið hvaða sóknarfæri það á. Í öðru lagi veitir Fyrirtæki ársins mikilvægan samanburð á milli ára. Í þriðja lagi fela skilgreiningar Fyrirtækis ársins í sér öflug verkfæri sem stjórnendur geta beitt í samvinnu við starfsfólk til að gera vinnustaðinn eftirsóknarverðan.
Niðurstöður könnunarinnar gefa VR skýra og viðamikla mynd af viðhorfum félagsmanna til vinnustaða sinna og ætti því að vera eftirsóknarvert fyrir öll fyrirtæki að vera fyrirmyndar vinnustaður. Tala nú ekki um sá besti.

Nánari upplýsingar og skráningu í Fyrirtæki ársins 2020 má finna hér.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, laugardaginn 18. janúar 2020.