Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
ragnar_frettamynd3.jpg

Almennar fréttir - 17.10.2017

Brot á réttindum aldrei látin viðgangast

Vegna fjölmiðlaumfjöllunar um málefni verslunarinnar Costco á Íslandi undanfarna daga vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Það er alveg ljóst að VR lætur brot á kjarasamningsbundnum rétti félagsmanna sinna ekki viðgangast, hvort sem um er að ræða félagsmenn hjá Costco eða annars staðar, og mun óhikað ganga alla leið til að sækja rétt sinna félagsmanna.

VR hefur frá opnun Costco upplýst þá félagsmenn sem starfa í versluninni, og hafa leitað til okkar, um réttarstöðu þeirra samkvæmt kjarasamningum. Starfsmenn kjaramálasviðs VR hafa m.a. sinnt umkvörtunum er snúa að rétti á neysluhléum, veikindarétti, rétti til greiðslu á lögbundnum frídögum og lágmarkshvíld. Þessi mál hafa öll verið leyst og hefur Costco brugðist við, leiðrétt og lagfært tilhögun samkvæmt ákvæðum kjarasamnings.

Formlegum ábendingum um réttarstöðu félagsmanna VR var komið á framfæri við forsvarsmenn Costco fyrr í sumar. Fyrirtækið óskaði í framhaldinu eftir fundi með sérfræðingum kjaramálasviðs og var þar farið yfir ábendingar sem höfðu borist félaginu og þar á meðal voru fyrirspurnir um ferðir til og frá vinnu sem ágreiningur er um. Til að geta sótt leiðréttingu á þessum lið kjarasamningsins þarf félagsmaður VR að leggja til gögn sem VR getur formlega afhent til forsvarsmanna verslunarinnar. Það hefur ekki gerst enn og því er VR ekki í stöðu til að sækja mál því tengt. Stjórnendur verslunarinnar og VR túlka þessa grein í kjarasamningnum með ólíkum hætti og er VR tilbúið að láta á málið reyna fyrir dómstólum sé þess þörf.

Á næstu dögum munu taka til starfa tveir trúnaðarmenn VR hjá Costco sem verður til þess að bæta upplýsingagjöf bæði til félagsmanna okkar sem vinna í versluninni og til félagsins frá þeim sjálfum.

Ragnar Þór Ingólfsson,
formaður VR.