Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
jafnlaunavottun_ccp.jpg

Almennar fréttir - 13.01.2017

CCP hlýtur Jafnlaunavottun VR

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP hefur hlotið Jafnlaunavottun VR sem nær nú til hátt í sex þúsund starfsmanna á vinnumarkaði og 29 fyrirtækja. Formaður VR segir ánægjulegt að ný ríkisstjórn setji jafnréttismálin í forgang og fagnar því að í farvatninu sé frumvarp um lögfestingu jafnlaunavottunar.

„Við erum mjög stolt og ánægð með að hafa fengið Jafnlaunavottun VR, því hún er staðfesting óháðs aðila á að launajafnrétti ríki hjá CCP,” segir Ása M. Ólafsdóttir, mannauðsstjóri hjá CCP. „Við viljum hafa samkvæmni að leiðarljósi í launaákvörðunum okkar og teljum að það skili sér í ánægju starfsfólks. Slík stefna hefur einnig jákvæð áhrif á getu okkar til að fá hæfileikaríkt fólk til starfa hjá CCP.”

Á starfsstöð CCP á Íslandi starfa 225 manns, 77% karlmenn og 23% konur. Alls starfa rúmlega 350 manns hjá CCP á starfsstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík, Shanghai, Atlanta, Newcastle og London. Samhliða vottuninni lét CCP kanna sérstaklega laun innlendra og erlendra starfsmanna fyrirtækisins. „Okkur til mikillar ánægju var launajafnrétti einnig staðfest í þeim samanburði,” segir Ása.

Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, segir ánægjulegt að afhenda CCP Jafnlaunavottun félagsins. „Jafnlaunavottunin felur í sér viðurkenningu á stefnu CCP í jafnréttismálum. Það er mikilvægt að stór fyrirtæki eins CCP skipi sér framarlega í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Vottun er markviss leið fyrir atvinnurekendur til að uppfylla kröfur jafnlaunastaðals Staðlaráðs Íslands og er auk þess tæki fyrir fyrirtæki og stofnanir til að meta stöðu kynjanna innan eigin veggja með viðurkenndri aðferðafræði og samræmdum viðmiðum.”

Jafnlaunavottun verði sjálfsögð í rekstrinum

Ólafía fagnar jafnréttisáherslum nýrrar ríkisstjórnar sem nú hafi á að skipa ráðherra félags- og jafnréttismála. “Ég fagna því að í farvatninu sé frumvarp um lögbindingu jafnlaunavottunar og bind miklar vonir við að það. VR hefur lengi barist fyrir launajafnrétti á vinnumarkaði, m.a. með Jafnlaunavottun VR, og það er afar mikilvægt að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til þeirrar baráttu á jafn afgerandi hátt og hér er gert.”

Hátt í sex þúsund starfsmenn á vinnumarkaði starfa hjá fyrirtækjum sem hafa fengið Jafnlaunavottun VR. Það hefur hins vegar ætíð verið stefna VR að láta verkefnið af hendi um leið og komið væri á opinbert ferli við vottun samkvæmt jafnlaunastaðlinum. Það hefur nú verið gert og hefur VR því hætt að bjóða jafnlaunavottun VR – CCP er eitt af síðustu fyrirtækjum sem fær vottun. Þau fyrirtæki sem gert hafa 3ja ára samning um Jafnlaunavottun VR klára þann samning. Það er von VR að sú leið sem ný ríkisstjórn hefur markað í jafnréttismálum skili því að jafnlaunavottun verði sjálfsögð í rekstri sem flestra fyrirtækja.

Um Jafnlaunavottun VR

Jafnlaunavottun VR er stjórntæki fyrir atvinnurekendur til að meta launajafnrétti innan fyrirtækja. Hún byggir á jafnlaunastaðli Staðlaráðs Íslands sem gefinn var út árið 2012 og staðfestir að viðkomandi fyrirtæki hafi tileinkað sér viðurkennda aðferðafræði og viðmið til að tryggja launajafnrétti kynjanna. Vottunarferlið felst í ítarlegri úttekt á launum starfsfólks, starfaflokkun og öðrum þáttum sem hafa áhrif á kjör og staðfestir jafnrétti til launa innan fyrirtækisins, þ.e. að konur og karlar fái sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Á myndinni eru frá vinstri Ólafía B. Rafnsdóttir formaður VR, Ása M. Ólafsdóttir mannauðsstjóri, Sophie Froment framkvæmdastjóri mannauðssmála hjá CCP og Unnur Guðríður Indriðadóttir, fagstjóri hjá VR.