Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-4.jpg

Almennar fréttir - 25.06.2020

Mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar eru of veikar - Lengja þarf tekjutengdar atvinnuleysisbætur í 24 mánuði

Guðrún Johnsen, efnahagsráðgjafi VR, bendir á í nýútkominni grein í tímaritinu Vísbendingu1, að ef forðast eigi að íslenskt efnahagslíf falli í djúpstæða kreppu þurfi efnahagsviðbrögð ríkisstjórnarinnar að vera mun ákveðnari og yfirgripsmeiri. Hún leggur til að íslensk stjórnvöld fari að dæmi ríkisstjórnar Frakklands sem hefur gefið út að sértækar aðgerðir gagnvart þeim sem misst hafa vinnuna af völdum COVID-19 muni standa yfir næstu 24 mánuði 2,3. Ástæðan fyrir því að samanburður milli Frakklands og Íslands er viðeigandi, að sögn Guðrúnar, er sú staðreynd að ferðamannaiðnaður Frakklands er því næst jafnstór og hann er á Íslandi að umfangi, eða 7,3% af VLF Frakklands árið 2019. Ferðaþjónustan á Íslandi er heldur umfangsmeiri, eða 8% af landsframleiðslu Íslands, miðað við nýjustu tölur frá 2019, sjá mynd 1. Franska hagstofan hefur þegar metið það svo að COVID-19 muni leiða til 11% samdráttar í vergri landsframleiðslu á þessu ári. Franska ríkisstjórnin hefur lagt þá tillögu fyrir þingið að halli ríkissjóðs verði 11,4% af VLF til að fjármagna mótvægisaðgerðir gegn efnahagssamdrættinum. Skuldastaða ríkissjóðs Frakka mun því fara upp í 120,9% af VLF.4 

 

Mótvægisaðgerðum ábótavant - gögn liggja ekki fyrir

Það er afar bagalegt að hið opinbera skuli ekki gefa út yfirgripsmeiri, fleiri og tíðari spár um efnahagsþróun, sem kemur sterklega í ljós þegar efnahagsáfall ríður yfir og stór hluti fólks hefur misst vinnuna að hluta eða öllu leyti. Erfitt er að sjá hvernig fjármálaráðuneytið kemst af með að móta ekki sjálfstæða skoðun á efnahagsframvindu miðað við verkefni ráðuneytisins, þar sem Hagstofan gefur út sínar spár einungis tvisvar á ári. Engar tölur hafa verið gefnar út af fjármálaráðuneytinu um væntanleg áhrif COVID19 á landsframleiðslu, en frá því að veirufaraldurinn færðist yfir hefur ráðuneytið mótað og framkvæmt mótvægisaðgerðir gegn framleiðsluslaka sem ekki hafði verið metinn af óháðum aðila.

Ráðuneytið áætlar að kostnaður aðgerðanna á rekstrargrunni ríkissjóðs verði um 4,3% af landsframleiðslu.6 Seðlabankinn spáir því að landsframleiðsla muni dragast saman um 8% á þessu ári7 og Landsbankinn býst við 9% samdrætti. 8 Spá Hagstofunnar frá nóvember 2019 áætlaði að landsframleiðsla ykist um 1,7%9, en von er á uppfærðri spá 26. júní næstkomandi.

Á Íslandi náði mánaðarlegt atvinnuleysi sögulegum hæðum í apríl 2020, sjá mynd 2, þegar 17,8% af heildarmannafla var án fullrar atvinnu. Stærsti atvinnuvegur landsins, ferðamannaiðnaðurinn, nánast hvarf á einni nóttu. Það er með öllu óvíst hvort, hvernig og hvenær hann nær sér aftur á strik eða með hvaða hætti fyrra atvinnustigi er náð. Það er því enn mikilvægara að ríkið styðji frekar við hagkerfið svo að það nái fullu atvinnustigi, eins og frönsk stjórnvöld virðast ætla sér þar í landi. Svigrúm íslenskra stjórnvalda er þó miklum mun meira en hins franska þar sem ríkisskuldabréf eru gefin út í eigin gjaldmiðli og skuldastaða ríkissjóðs Íslands með því lægsta sem mælist. Þó eftirspurn eftir nýútkomnum ríkisskuldabréfum komi um þessar mundir helst frá Seðlabankanum sjálfum, hefur svigrúm fagfjárfesta til kaupa á ríkisskuldabréfum verið takmarkað vegna lítillar útgáfu ríkisskuldabréfa undanfarin misseri. Eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum ætti því að vera næg. Seðlabankinn býr yfir veglegum gjaldeyrisvaraforða til að verja fall krónunnar, en fjárfesting hins opinbera í að viðhalda atvinnustigi ætti að verða fljót að skila sér. Undir þessum kringumstæðum er hættan á verðbólgu lítil.10 

 

Greiðsluvandi ekki eiginfjárvandi

Meðalskuldastaða heimila miðað við október í fyrra12 hefur batnað mikið frá hruni. Einstaklingar sem ekki eiga sjálfir húsnæði skulda þó um 40% ráðstöfunartekna sinna að meðaltali á meðan íbúðareigendur skulda yfir 250% af ráðstöfunartekjum sínum, sjá mynd 3. Miðgildi heildarlauna á vinnumarkaði var 615 þús. árið 2019, skv. mati VR síðastliðið haust. Grunnatvinnuleysisbætur eru hins vegar einungis 289 þús. krónur fyrir skatt. Hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta er 456 þús. krónur.13 Ef miðju-launamaðurinn er tekinn sem dæmi verður hann fyrir fjórðungs lækkun ráðstöfunartekna fyrstu þrjá mánuðina, en eftir að tekjutengdum bótum sleppir lækka þær um meira en helming. Sem betur fer er eiginfjárstaða almennings mun betri, að meðaltali, en við upphaf þessa áratugar. Ef greiðsluflæðið inn á fimmta eða sjötta hvert heimili dugar ekki er ljóst að endurskipulagning efnahagsreikninga heimilanna þarf að eiga sér stað, með tilheyrandi hættu á að stjórnvöld missi tökin á efnahagsstjórninni og úr verði fjármálakreppa. Heildareftirspurn í hagkerfinu mun þá líklega lækka til muna og taka fleiri fórnarlömb með sér. Það blasir við að tryggja þarf greiðsluflæði inn á heimilin, a.m.k. með því að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta til að draga úr líkum á að þessi sviðsmynd raungerist.

Brú, reipi eða róla?

Það er afar erfitt að réttlæta það að tiltekinn hópur samfélagsins; þeir sem aðallega störfuðu í ferðamannaiðnaði, færi flestar þær efnahagslegu fórnir sem fylgir Covid19. Ljóst er að krafan stendur upp á stjórnvöld, sem tóku ákvarðanir um hömlur á atvinnustarfsemi, að koma þeim heimilum til aðstoðar sem á þurfa að halda. En hvaða tæki ætla íslensk stjórnvöld að bjóða upp á til að koma fórnarlömbum þessarar kreppu sæmilega klakklaust yfir hið efnahagslega hyldýpi sem blasir við þeim?

— Guðrún,

Eins og sakir standa, segir Guðrún, virðist sumu fólki bjóðast að ganga út á reipi fram til 31. ágúst, sem eru tekjutengdar atvinnuleysisbætur. Þegar tekjutengdra atvinnuleysisbóta nýtur ekki lengur við munu margir falla niður í gilið. Öðrum býðst að setjast upp í rólu sem kemur þeim áleiðis yfir gjána, með því að þiggja atvinnuleysisbætur skv. hlutabótaleiðinni, en sveiflast svo aftur á sama stað þar sem hið opinbera ætlar einnig að aðstoða fyrirtæki við að segja þessu sama fólki upp í stað þess að hvetja til þess að ráðningarsambandi sé viðhaldið. Ekki liggur fyrir opinberlega mat á afleiddum áhrifum greiðslu launa á uppsagnarfresti af hendi fjármálaráðuneytisins, hversu margir munu nýta sér það úrræði, hvaða áhrif það mun hafa á töpuð laun launþega til langs tíma eða hver langtímaáhrif verða á heildareftirspurn.

Eðli þessarar kreppu; þar sem stærsti atvinnuvegur Íslendinga nánast hvarf á einni nóttu, ásamt nauðsyn þess að viðskipta -og neysluhættir breytist í átt að sjálfbærri efnahagsstarfsemi til lengri tíma, kallar á að atvinnurekendur fjárfesti í nýsköpun og launafólk bæti við sig menntun til að mæta þörfum annars konar vinnumarkaðar sem mun rísa eftir kreppuna“, segir Guðrún í greininni. „Þrátt fyrir langan lista af ýmis konar opinberum úrræðum sem merkt hafa verið sem björgunarúrræði, svo sem að lengja fæðingarorlof, leyfa launþegum að ráðstafa lögbundnum lífeyrissparnaði sínum í eigið húsnæði og ríkisábyrgð á stuðningslánum til rekstrarhæfra fyrirtækja, virðast engin áform vera uppi um að byggja sæmilega trausta brú, að fyrirmynd Frakka, sem sér til þess að heildareftirspurn, eignaverð og félagsauður verði fyrir sem minnstum áhrifum, þar sem atvinnurekendum og launþegum er gefið raunhæft svigrúm, 24 mánuðir, til að ná jafnvægi að nýju og komast heil á hinn gilsbakkann. Þar sem íslenskir lýðheilsufræðingar eru þegar búnir að vinna stríðið við veiruna er komið að stjórnmálamönnum að vinna friðinn.

— Guðrun,
  1. Guðrún Johnsen, “Handan hengiflugsins”, Vísbending, 12. júní 2020, 23. tbl., 32. árg.
  2. Bruegel, 2020, “The Fiscal Response the Economic Fallout from the Coronavirus”, aðgengilegt:
    https://www.bruegel.org/publications/datasets/covid-national-dataset/#france
  3. Financial Times, 2020, „France to extend crisis jobs scheme for up to two years”, dags. 08.06.2020 aðgengilegt: https://www.ft.com/content/63b33ede-4463-4342-845a-26cf85a91d3d
  4. ILO, 2020, „COVID-19 and the World of Work: Country Policy Responses“.
  5. Assemblee Nationale, 2020, Fjáraukalög no. 2202, fyrir 2020, aðgengilegt: https://www.economie.gouv.fr/presse og https://minefi.hosting.augure.com/Augure_Minefi/r/ContenuEnLigne/Download?id=76066430-5033-4426-80CE-2B33E9F535E4&filename=PLFR3.pdf
  6. OECD, 2020, Data, Tourism GDP - Total % of GDP 2008-2018, aðgengilegt: https://data.oecd.org/industry/tourism-gdp.htm
  7. Fjármálaráðuneytið, 2020, Umfang mótvægisráðstafana stjórnvalda vegna COVID 19, aðgengilegt: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Umfang%20%C3%A1%20a%C3%B0ger%C3%B0um%20stj%C3%B3rnvalda-vefur-20200519-vefur.pdf
  8. Seðlabanki Íslands, 2020, Yfirlýsing Peningastefnunefndar, Peningamál 2020/2, aðgengilegt: https://www.sedlabanki.is/library/Skraarsafn/Peningamal/2020/Mai-2020/Peningamal_2020_2_heildarskjal.pdf
  9. Landsbankinn, 2020, Þjóðhags - og verðbólguspá 2020-2022, aðgengileg: https://umraedan.landsbankinn.is/umraedan/efnahagsmal/hagspa-til-2022/
  10. Hagstofa, 2019, Þjóðhagsspá - Útlit fyrir 0,2% samdrátt í ár, 1,7% hagvöxt árið 2020, aðgengilegt: https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/thjodhagsspa/thjodhagsspa-a-vetri/
  11. https://kjarninn.is/frettir/2020-03-18-sedlabankinn-med-staersta-inngrip-gjaldeyrismarkad-fra-hruni/
  12. Vinnumálastofnun 2020, sjá: https://vinnumalastofnun.is/spurt-og-svarad/spurningar-og-svor-fyrir-atvinnuleitendur
  13. Tölur miðast við gögn sem birtust í Fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabanka Íslands 2019/2. Athygli vekur að áætluð birting Fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans, sem hefur verið gefin út í apríl eða maí ár hvert síðan er 2010, er nú áætluð þann 30. júní.
  14. Vinnumálastofnun 2020, sjá: https://vinnumalastofnun.is/spurt-og-svarad/spurningar-og-svor-fyrir-atvinnuleitendur