Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_adalfundur

Almennar fréttir - 26.10.2017

Tillögur að breytingum á kosningalögum VR

Stjórn VR mun leggja fram tillögur að breytingum á kosningalögum félagsins á aðalfundi VR árið 2018. Breytingatillögurnar eru sjö talsins og stuðla allar að því að kosningar í félaginu verði annað hvert ár í stað kosninga á hverju ári eins og nú er. Þá lengist einnig kjörtímabilið úr tveimur árum í fjögur en slíkar breytingar hafa verið til umræðu á síðustu árum. Var tillaga þess efnis borin upp á aðalfundi félagsins árið 2014 en henni var þá vísað frá þar sem meirihluti fundarmanna taldi breytinguna þurfa frekari kynningu. Er það meðal annars þess vegna sem breytingartillögurnar eru kynntar með svo góðum fyrirvara nú.

Verði breytingatillögurnar samþykktar verður fyrirkomulagið á þá leið að formaður yrði kosinn til fjögurra ára í senn, stjórnarmenn kosnir sjö í einu til fjögurra ára og annað hvert ár ganga sjö úr stjórninni á víxl. Varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn. Þá snýr ein tillagan að því að sama eigi við um kosningar í stjórnir deilda til að gæta samræmis. Með sama hætti væri lenging á kjörtímabili trúnaðarráðs svo að annað hvert ár væri kosinn 41 fulltrúi í listakosningu til setu í trúnaðarráði til fjögurra ára í senn og tíu til vara til tveggja ára í senn.

Verði breytingarnar samþykktar verður kosið í samræmi við ný kosningalög árið 2021 en nauðsynlegt er að bæta við bráðabirgðaákvæðum um sérstakt afbrigði kosninga á árunum 2019-2020 til að laga nýtt fyrirkomulag að þeim sem hlutu kosningu eftir eldri lögum.

VR mun kynna vel hvað felst í breytingatillögunum á næstu dögum.