Fyrirtæki ársins og laun

Könnun VR á Fyrirtæki ársins og launakjörum 2017 er lokið en hún stóð frá 2. febrúar 2017 til og með 12. mars. Allir félagsmenn VR höfðu tækifæri til að taka þátt í könnuninni auk um 6.000 annarra sem ekki eru í VR en starfa hjá um 160 fyrirtækjum á vinnumarkaði sem buðu öllum starfsmönnum þátttöku. Niðurstöðurnar verða birtar á vef VR þann 18. maí 2017.

Niðurstöður í könnuninni á Fyrirtæki ársins gefa stjórnendum mikilvægar upplýsingar um viðhorf starfsmanna, hvað vel er gert innan fyrirtækisins og hvað þarf að laga. Þær eru mælikvarði á frammistöðu stjórnenda og segja til um stöðu fyrirtækisins í samanburði við önnur fyrirtæki.

Markmiðið með launakönnun er að veita upplýsingar um markaðslaun í mismunandi starfsgreinum svo félagsmenn geti borið laun sín saman við laun sem greidd eru í hliðstæðum störfum / starfsgreinum. Launakönnunin veitir einnig mikilvæga innsýn í þróun launa og launamunar kynjanna. Einungis fullgildir félagsmenn VR fá senda launakönnun.

Hvernig er trúnaður tryggður?

Gallup, sem sér alfarið um framkvæmd könnunarinnar, leggur metnað sinn í að gæta að trúnaði við svarendur kannana. Trúnaður er tryggður á öllum stigum ferlisins; í gagnaöflun, í meðferð gagna og í framsetningu niðurstaðna.

Á meðan á könnuninni stendur er tenging milli netfangs og könnunar. Þessi tenging er nauðsynleg m.a. til að geta sent þátttakendum áminningar/ítrekanir. Þegar gagnaöflun lýkur eru þessi tengsl rofin. Slóðin fylgir ekki gögnunum/svörunum þegar gögnin fara til úrvinnslu og skýrslugerðar.

Í launakönnun eru aðeins sýndar launatölur fyrir 6 eða fleiri í hverjum flokki, t.d. starfaflokki.

Í könnun á Fyrirtæki ársins eru niðurstöður fyrir einstök fyrirtæki aldrei greindar þannig að hægt sé að sjá hver svarar. Aðeins eru sýnd meðaltöl fyrir alla svarendur fyrirtækisins og niðurstöður einstakra fyrirtækja eru aldrei greindar eftir bakgrunnsupplýsingum, svo sem kyni eða aldri.

Niðurstöður fyrir lítil fyrirtæki eru aðeins birtar fyrir fimm svarendur eða fleiri. Þá er lágmarks þátttökuhlutfall 35% af útsendum listum og ef þátttaka er lakari en það eru niðurstöður ekki birtar. Eftir því sem fyrirtækið stækkar eru gerðar ríkari kröfur um fjölda þátttakenda eins og sjá má hér:

  • Að lágmarki 5 svarendur hjá fyrirtækjum með færri en 20 starfsmenn
  • Að lágmarki 6 svarendur hjá fyrirtækjum með 20 til 49 starfsmenn
  • Að lágmarki 10 svarendur hjá fyrirtækjum með 50 til 99 starfsmenn
  • Að lágmarki 20 svarendur hjá fyrirtækjum með 100 til 499 starfsmenn
  • Að lágmarki 50 svarendur hjá fyrirtækjum með 500 starfsmenn eða fleiri