Launakönnun 2015

Launamunur kynjanna

Kynbundinn launamunur hjá stjórnendum innan VR eykst á milli ára. Þá hækka aukagreiðslur karla í launahærri störfum meira en kvenna á milli ára.

Niðurstöður launakönnunar VR 2015 gefa vísbendingar um að launamunur kynjanna innan félagsins kunni að vera að aukast eftir að hafa dregist saman jafnt og þétt síðustu ár. Breytingin er innan vikmarka, 1,4% á meðan vikmörkin eru 1,6%, en engu að síður umtalsverð og mesta aukning milli tveggja ára sem mælst hefur í launakönnun félagsins.

Munur á heildarlaunum 14,2%

Munur á heildarlaunum kynjanna er nú 14,2% en var 13,3% á síðasta ári. Til samanburðar má nefna að árið 2000 var munurinn 20,4%. Á fimmtán árum hefur munur á heildarlaunum kynjanna því dregist saman um tæpan þriðjung. Þegar rætt er um mun á heildarlaunum karla og kvenna er miðað við laun fyrir fullt starf. Ekki er tekið tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á launin, s.s. starfsins sjálfs eða atvinnugreinarinnar né fjölda vinnustunda þó að borin séu saman laun fyrir 100% starf. Vinnuvika karla í fullu starfi er lengri en kvenna eða 45,2 stundir á móti 42,4 stundum.

Kynbundinn launamunur 9,9%

Kynbundinn launamunur innan VR er nú 9,9% en var 8,5% árið 2014. Á árunum 2012 og 2013 var munurinn 9,4% en hann var 15,3% árið 2000. Á síðustu fimmtán árum hefur kynbundinn launamunur því einnig dregist saman um rúman þriðjung. Kynbundinn launamunur er sá munur sem er á heildarlaunum kynjanna eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifaþátta á laun. Þessir þættir eru: aldur, starfsaldur, starfsstétt, atvinnugrein, menntun, mannaforráð, vinnutími og hvort viðkomandi vinni vaktavinnu. Áhrif vinnutíma vega þyngst þegar kemur að launamuni kynjanna.

Launamunur stjórnenda eykst

Nokkrir þættir geta skýrt þá breytingu milli ára sem tölurnar um launamuninn sýna nú. Þegar kynbundinn launamunur er skoðaður innan starfsgreina má sjá að hjá stjórnendum eykst hann marktækt á milli ára. Árið 2014 var kynbundinn launamunur í hópi stjórnenda 6% en er núna 10,6%. Vikmörk eru +/-2,5% og því ljóst að munurinn á launum kvenna og karla í þessum launahæsta hópi félagsmanna VR jókst marktækt á milli ára. Það dregur hins vegar marktækt úr kynbundnum launamun hjá skrifstofufólki, en þar eru fáir karlmenn og því sveiflur miklar á milli ára.

                     Kynbundinn launamunur starfa
    2014      2015   Vikmörk
Stjórnunarstörf  6,0%   10,6%   +/-2,5%
Sérfræðistörf (hásk.menntun)   8,2%   8,4%   +/-2,8%
Sérhæfð störf 8,6%   9,4%   +/-2,4%
Skrifstofustörf 13,2%   6,2%   +/-6,5%
Sölu- og afgreiðslustörf 12,8%   13,3%   +/-3,4%
Akstur, lager og framleiðsla 5,9%   10,5%   +/-6,2%

Karlar fá frekar aukagreiðslur

Annar þáttur sem vert er að skoða í samhengi við þessar tölur um launamun kynjanna er hvernig aukagreiðslum er háttað, t.d. greiðslum fyrir yfirvinnu (bæði unna og „óunna“), bílastyrk, vaktaálag, bónus o.s.frv. Fleiri karlar en konur eru með aukagreiðslur sem hluta af heildarlaunum sínum. Alls sögðust 72% karla sem svöruðu launakönnun VR 2015 vera með aukagreiðslur af þessu tagi á móti 60% kvenna. Aukagreiðslur karla eru þar að auki umtalsvert hærri en kvenna, karlar í fullu starfi eru að meðaltali með 58 þúsund krónur á mánuði í aukagreiðslur á móti 37 þúsund hjá konum.

Það sem vekur athygli í niðurstöðum launakönnunar VR nú er að aukagreiðslur karla í hópi stjórnenda hækkuðu mun meira á milli áranna 2014 og 2015 en aukagreiðslur kvenna eða um 10% á móti 2% hjá konum. Á árunum 2012 til ársins 2014 var hækkunin almennt meiri hjá konum.

Ef við skoðum aukagreiðslur í hópi sérfræðinga með háskólamenntun er það sama er uppi á teningnum, aukagreiðslur karla hækka meira en kvenna á milli áranna 2014 og 2015. Miklar sveiflur einkenna hins vegar aukagreiðslur síðustu ár, sérstaklega í hópi sérfræðinga.

Ávinningur af menntun – dregur saman með kynjunum

Eins og fram kemur í umfjöllun um ávinning af menntun er ávinningur kvenna af aukinni menntun meiri en karla. Þessi ávinningur virðist hins vegar vera að minnka, árið 2009 var ávinningur kvenna umfram karla af framhaldsnámi í háskóla 16 prósentustig en er núna 7 prósentustig.

Mismunandi væntingar kynjanna

Það er einnig áhugavert í samanburði á launum kynjanna að skoða væntingar karla og kvenna til launa. Í könnun VR er spurt hvaða laun svarendur telja sanngjörn fyrir sitt starf. Kynin segja sanngjörn laun um 16 - 17% hærri en launin sem þau eru með núna; karlar nefna töluna 665 þúsund en konur 558 þúsund. Munurinn á væntingum kynjanna til launa, þegar krónutalan er skoðuð, er 16% sem er meiri munur en er á heildarlaunum kynjanna en hann er um 14% samkvæmt könnuninni.

Allar niðurstöður

Reiknaðu launin

Hér getur þú séð hver launin eru fyrir einstaka starfsstéttir, ýmist innan atvinnugreina eða án tillits til atvinnugreinarinnar.

Sjá nánar

Helstu niðurstöður

Laun félagsmanna VR hækkuðu um 2,9% á milli janúarmánaðar 2014 og sama mánaðar 2015, skv. launakönnun VR. Grunnlaunin hækkuðu um 2,1%.

Sjá nánar

Launamunur kynjanna

Niðurstöður launakönnunar VR 2015 gefa vísbendingar um að launamunur kynjanna innan félagsins kunni að vera að aukast eftir að hafa dregist saman jafnt og þétt síðustu ár. Breytingin er innan vikmarka, 1,4% á meðan vikmörkin eru 1,6%, en engu að síður umtalsverð og mesta aukning milli tveggja ára sem mælst hefur í launakönnun félagsins.

Sjá nánar

Ávinningur menntunar

Menntun á háskólastigi skilar konum hlutfallslega meiri ávinningi en körlum en það dregur saman með kynjunum. Á árinu 2009 skilaði stúdentspróf að meðaltali 6% hærri launum í launaumslagið en grunnskólanám þegar búið er að taka tillit til þeirra þátta sem hafa áhrif á launin, s.s. vinnutíma, starfs, atvinnugreinar, mannaforráða, aldurs, starfsaldurs og kyns.

Sjá nánar

Samanburður VR, SFR og STRV

VR hefur undanfarin ár birt samanburð á niðurstöðum launakannanna hjá VR, SFR stéttarfélagi og Starfsmannafélagi Reykjavíkur. VR hefur kannað laun og önnur kjör sinna félagsmanna nær samfellt í tvo áratugi, SFR stéttarfélag hefur gert samskonar launakönnun meðal félagsmanna sinna frá árinu 2007 og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar bættist nýlega við.

Sjá nánar

Framkvæmdin

Markmið launakönnunar VR er tvíþætt. Í fyrsta lagi að kanna kjör félagsmanna og samsetningu launa og í öðru lagi að meta hvort kynbundinn launamunur sé fyrir hendi og hversu mikill hann er. Launakönnunin er mikilvægt tæki fyrir félagsmenn VR í kjarabaráttunni.

Sjá nánar