Launakönnun 2017

Ný verkefni heilla

Nær þriðjungur þeirra sem svöruðu spurningum um stöðu sína á vinnumarkaði í launakönnun VR 2017 skipti um aðalstarf á síðustu tveimur árum. Ein helsta ástæðan var að viðkomandi vildi takast á við ný verkefni. Launin og óánægja í starfi voru einnig ofarlega á blaði. Flestir eru ánægðari með nýja vinnustaðinn en þann gamla.

Hreyfing á vinnumarkaði

Í launakönnun VR 2017 voru lagðar spurningar fyrir félagsmenn um stöðu þeirra á vinnumarkaði og viðhorf til starfsleitar sem og um fræðslu og þörf á aukinni menntun. Helmingur svarenda fékk spurningar sem varða starfsleit og helmingur um spurningar sem varða menntun og fræðslu.

Niðurstöðurnar um hreyfingu á vinnumarkaði og starfsleit eru mjög áhugaverðar. Tæplega þriðjungur svarenda skipti um aðalstarf á síðustu tveimur árum og er marktækur munur milli kynjanna, 33% kvenna skipti um starf og 27% karla. Tæplega þriðjungur sagðist oft hugsa um að skipta um starf og um 18% myndu vilja skipta um starf en telja að ekkert sé í boði.

Löngun til að takast á við ný verkefni var helsta ástæða vistaskiptanna en í öðru sæti var óánægja með laun og í því þriðja óánægja með starfið almennt. Einungis 8% var sagt upp störfum. Þeir sem skiptu um starf eru almennt ánægðari með nýja vinnustaðinn, til dæmis segja sex af hverjum tíu að launin séu betri og svipað hlutfall segir að tækifærin til starfsþróunar séu betri í nýja starfinu en því gamla.

Hér má sjá niðurstöðurnar þegar spurt er um ástæður þess að viðkomandi skipti um starf. Athugið að merkja mátti við fleiri en einn valmöguleika.

 

Er auðvelt að fá aðra vinnu með svipuð kjör?

Tæplega helmingur eða 48% telur að það yrði auðvelt fyrir sig að fá aðra vinnu þar sem kjörin væru svipuð og í núverandi starfi. Það er umtalsvert hærra hlutfall en fyrir tveimur árum þegar 39% voru þessarar skoðunar og enn hærra en árið 2014 þegar hlutfallið var 32%. Hér eru karlarnir bjartsýnni en konur, 52% karla telja að það yrði mjög eða frekar auðvelt fyrir þá að fá aðra vinnu með svipuð kjör en 45% kvenna og er munurinn marktækur.

Hvernig leitar þú að starfi?

Það er áhugavert að árangursríkasta aðferðin við starfsleitina, að mati þeirra sem skiptu um starf, var að nýta tengslanet sitt og leita til vina og ættingja. Að hafa beint samband við fyrirtæki eða stjórnendur fyrirtækja fylgdi þar fast á eftir.

Karlar virðast nýta tengslanet sitt betur en konur, 38% karla sem skiptu um vinnu á síðustu tveimur árum töldu tengslanetið áhrifaríkast í starfsleitinni en 29% kvenna. Þeir sem eru meira menntaðir nýta tengslanet sitt einnig betur en þeir sem hafa skemmri menntun að baki.

Áhrifaríkasta aðferðin við starfsleitina

Hér voru svarendur beðnir um að raða valmöguleikunum eftir því hvaða leið þeir töldu árangursríkasta. Eingöngu þeir sem skiptu um starf á síðustu tveimur árum fengu þessa spurningu.

 

Fyrsta val 

Annað val

Þriðja val

Samtals

Tengslanet, vinir og ættingjar

33%

9%

3%

45%

Beint samband við fyrirtæki/stjórnendur

25%

11%

3%

39%

Netið

23%

11%

5%

39%

Dagblöð

6%

6%

3%

15%

Vinnumiðlun

8%

4%

2%

14%

Samfélagsmiðlar

4%

4%

2%

10%

Allar niðurstöður

Reiknaðu launin

Hér getur þú séð hver launin eru fyrir einstaka starfsstéttir samkvæmt launakönnun VR 2017, ýmist innan atvinnugreina eða án tillits til atvinnugreinarinnar. Þu getur einnig borið saman þín eigin laun við niðurstöður launakönnunarinnar. Þá er hér einnig bæklingur með öllum launatöflum og samanburði milli ára og góð ráð fyrir launaviðtalið.

Sjá nánar

Helstu niðurstöður

Frá janúar 2016 til janúar 2017 hækkuðu grunn- og heildarlaun félagsmanna VR um 5,5% samkvæmt niðurstöðum launakönnunar. Laun á klukkustund hækkuðu meira eða um 6,9%. Launavísitala VR hækkaði um 6% á sama tímabili en launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 8,7%. Á tímabilinu var 6,2% kjarasamningsbundin hækkun frá og með 1. janúar 2016.

Sjá nánar

Launamunur kynjanna

Kynbundinn launamunur innan VR er 11,3% og hefur ekki breyst marktækt á síðustu árum, þrátt fyrir harða baráttu. Ef við lítum lengra aftur í tímann hefur þó dregið saman með kynjunum - árið 2000 var kynbundinn launamunur innan VR 15,3% sem er marktækt hærri en sá munur sem við sjáum í dag.

Sjá nánar

Fræðslumál

Mikill meirihluti svarenda í launakönnun sem fékk spurningar um fræðslumál eða níu af hverjum tíu nýta reynslu sína og hæfni vel í starfi og nær sjö af hverjum tíu nýta menntun sína vel. Félagsmenn fylgjast líka almennt vel með nýjungum og breytingum sem varða starf þeirra.

Sjá nánar

Hreyfing á vinnumarkaði

Nær þriðjungur þeirra sem svöruðu spurningum um stöðu sína á vinnumarkaði í launakönnun VR 2017 skipti um aðalstarf á síðustu tveimur árum. Ein helsta ástæðan var að viðkomandi vildi takast á við ný verkefni. Launin og óánægja í starfi voru einnig ofarlega á blaði.

Sjá nánar

Framkvæmdin

Markmið launakönnunar VR er tvíþætt. Í fyrsta lagi að kanna kjör félagsmanna og samsetningu launa þeirra og í öðru lagi að meta hvort kynbundinn launamunur sé fyrir hendi og ef svo er, hversu mikill hann er. Launakönnunin er mikilvægt tæki fyrir félagsmenn VR í kjarabaráttunni.

Sjá nánar

Happdrættið

Búið er að draga í happdrættinu í tengslum við könnunina á Fyrirtæki ársins og launum 2017. Í vinning voru tvö gjafabréf með Icelandair og fimm miðar fyrir tvo á Airwaves hátíðina í haust. Búið er að hafa samband við vinningshafana.Vinningsnúmerin eru: 104255, 106681, 111841, 113258, 134403, 138886 og 139432.

Sjá nánar