Góð starfslok

Skv. rannsóknum er það starfsánægjan sem hefur mesta þýðingu í því sambandi hve lengi maður vill sinna starfi sínu. Rannsóknin var gerð meðal 2400 félagsmanna HK í Danmörku. Níu af hverjum tíu félagsmönnum segja að það sem skiptir mestu máli sé að þeir dafni félagslega og faglega.

Fyrir eldri starfsmenn hefur það mikla þýðingu fyrir vellíðan í starfi að finn að þeir séu metnir að verðleikum. Fólk þarf að finna að þeirra sé þörf og að bæði stjórnendur og starfsfélagar meti mann mikils. Þetta er lykillinn að því að halda í eldri starfsmenn. Ef atvinnurekandi segir við starfsmanninn að vinnustaðurinn geti hvorki verið án hans né kunnáttu hans er það næstum regla að starfsmaðurinn kýs að halda áfram. Rannsóknin gefur til kynna að 41% af þeim sem eru á eftirlaunum hefðu beðið með að draga sig í hlé frá vinnumarkaði ef þeim hefði liðið betur á vinnustaðnum.

Vellíðan á vinnustað snertir ekki bara sambandið við stjórnendur og samstarfsmenn. Streita á vinnustað og tilfinningin varðandi það að fylgja hinum yngri eftir hefur einnig mikil áhrif. Stundum gerist það við komu nýs yfirmanns að starfsmaður þarf að breyta starfsháttum sínum algerlega. Starfsmanninum, sem hefur ef til vill unnið lengi með sama hætti, finnst hann ekki hafa lengur áhrif á starfið sitt og kýs að hætta. Hann hættir ósáttur og öllum líður illa með það. Oft er þetta er nauðsynlegt, vinnuumhverfi breytist í nútímatækni og nýjar aðferðir leysa þær eldri af. Það er hinsvegar ljóst að það skapar mikla möguleika fyrir fyrirtæki ef stjórnendur átta sig á að skapa vettvang fyrir þá eldri.

Það eru mikil verðmæti fólgin í eldri starfsmönnum. Þeir eru hollir, þeir hafa þroskað mikla hæfni og reynslu. Þeir hafa góða þekkingu á menningu vinnustaðarins sem þeir geta miðlað til yngri starfsmanna og það er mikilvægt fyrir jafnvægi á vinnustaðnum.

Það þarf hins vegar að ríkja gagnkvæm virðing milli eldri og yngri starfsmanna og hafa ber í huga að báðir hópar hafa sitthvað til málanna að leggja, oftast jafn mikilvægt fyrir störfin. Þeir þættir sem auðvelda eldra fólki að vinna lengur geta verið styttri vinnutími, auka frídagar, eða einhver önnur sérkjör. Rúmlega helmingur þeirra sem tóku þátt í könnuninni töldu að aðlögun að starfslokum á vinnustöðum væri mikilvæg eða mjög mikilvæg.

Birt í 3. tbl. VR blaðsins 2021.