Við atvinnumissi

Þann dag sem þú ert sannanlega atvinnulaus sækir þú um atvinnuleysisbætur í gegnum vefsíðu Vinnumálastofnunar, sjá nánari upplýsingar um skráningarferlið.

Umsókn um atvinnuleysisbætur er eingöngu á rafrænu formi. Almennur vinnslutími umsóknar er 4-6 vikur. Eftir að umsókn hefur verið send inn rafrænt þarf að skila inn nauðsynlegum fylgigögnum til Vinnumálastofnunar. Hægt er að skila fylgigögnum í tölvupósti, sjá frekari upplýsingar.

Atvinnuráðgjöf hjá VR

Þeir sem það hafa reynt vita að atvinnuleit getur verið krefjandi og erfið auk þess sem hún kallar á þekkingu sem ekki er á allra færi, þekkingu á því hvernig gera á góða ferilskrá, hvernig best er að búa sig undir atvinnuviðtöl og svo mætti áfram telja. Hjá atvinnuráðgjöfum VR geta félagsmenn fengið aðstoð þar sem lögð er áhersla á að veita hvatningu, stuðning og ráðgjöf við atvinnuleitina svo sem við gerð ferilskrár og undirbúning fyrir viðtöl. Lögð er áhersla á að efla einstaklinginn í atvinnuleitinni og aðstoða hann við að koma auga á styrkleika og hæfni. Í hverju tilfelli er farið yfir stöðuna og metið hvar aðstoðar er þörf. Þá eru atvinnuráðgjafar einnig til staðar til að leiðbeina um hvaðeina er varðar atvinnuleysisbótakerfið. 

Ferilskráin

Að mörgu er að huga þegar kemur að gerð ferilskrár og er í raun ekki til ein rétt uppskrift að ferilskrá. Mikilvægt er þó að hafa ákveðna þætti í huga.

Ferilskrá er stutt kynning á einstaklingi sem er að sækja um starf. Í ferilskránni kemur fram yfirlit yfir starfsreynslu, menntun, hæfni og áhugasvið einstaklingsins. Hún hefur þann tilgang að gefa fyrirtækinu góðar og lýsandi upplýsingar um umsækjandann.

Það er mikilvægt að vanda upplýsingar og framsetningu á ferilskránni því hún er fyrsta kynning á umsækjandanum og ræður því ásamt kynningarbréfinu hvort áhugi kviknar á frekara samtali eða boð í viðtal.

Mælt er með að ferilskrá sé stutt og hnitmiðuð. Stafsetning þarf að vera í lagi og notast skal við vandað málfar. Ferilskráin þarf að vera vel upp sett og í flestum tilfellum er meginreglan sú að hún sé um 1-2 A4 blaðsíður að lengd. Ferilskráin á að vera kynning á umsækjanda frekar en ítarlegt æviágrip. Þá eru flestir sammála um að hæfilegt sé að greina frá starfsferli síðustu 10-15 ára.

Uppsetning ferilskrár

Kynningarbréf

Á síðastliðnum árum hefur í auknum mæli myndast sú hefð að umsækjendur skili inn kynningarbréfi ásamt ferilskrá. Kynningarbréf á sérstaklega vel við þegar sótt er um störf sem krefjast sérþekkingar.
Kynningarbréf er einskonar viðauki við ferilskrá þar sem gefst tækifæri til að útskýra ákveðin atriði á ferilskránni betur og gefa ítarlegri lýsingu á hæfni sinni á persónulegan hátt. Mikilvægt er að kynningarbréf sé stutt og hnitmiðað, ekki meira en hálf til ein blaðsíða að lengd. Kynningarbréf ætti m.a. að svara spurningunum hér að neðan:

  • Hvaða starf sækir þú um og hvers vegna?
  • Hvernig þú uppfyllir menntunar- og hæfniskröfur?
  • Hvaða þekkingu og reynslu hefur þú fram að færa sem gerir þig að hæfasta einstaklingnum í starfið?

Uppbygging á kynningarbréfi

Atvinnuviðtalið

  • Skoða starfslýsingu vel áður en farið er í viðtal
  • Þegar spurt er um barneignir, andleg eða líkamleg veikindi er hreinskilnin alltaf best. Varast skal tilfinningasemi ef slíkt berst í tal, best að undirbúa sig vel áður fyrir slíkar spurningar.

Spurningar fyrir atvinnuviðtalið