Almennt um greiðslu í lífeyrissjóð

Öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er skylt að greiða í lífeyrissjóð frá og með 16 ára til 70 ára aldurs. Félagsmenn VR greiða 4% af heildarlaunum og á upphæðin að koma fram á launaseðli. Á móti framlagi launþega greiðir atvinnurekandi 8% frá 1. janúar 2007. Þessi upphæð kemur ekki fram á launaseðli.

Framlag í séreignarsjóð

Allir geta að auki greitt í séreignarlífeyrissjóð, allt að 4% af heildarlaunum. Þessi greiðsla er val hvers og eins og er til viðbótar þeim 4% sem skylt er að greiða. Tilhögun þessa er eins í báðum samningum VR. Í þeim tilvikum sem starfsmaður leggur til viðbótarframlag í séreignarsjóð, 2- 4%, greiðir vinnuveitandi 2% framlag á móti.

Framlagið greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem launþegi á aðild að, nema hann ákveði annað.

Vantar þig nánari upplýsingar?

Ítarleg umfjöllun um lífeyrisgreiðslur og töku lífeyris er á heimasíðu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, live.is og heimasíðu Stafa lífeyrissjóðs, stafir.is.