Uppsögn

Það er mikilvægt að þú þekkir þinn rétt þegar kemur að uppsögn, hvort sem þú segir upp eða færð uppsagnarbréf.

Uppsagnarfrestur ótímabundinna ráðningarsamninga er sem hér segir:

  • Á fyrstu þremur mánuðum í starfi (reynslutími), 1 vika.
  • Á fjórða til sjötta mánuði í starfi, 1 mánuður, uppsögn skal vera um mánaðamót.
  • Eftir sex mánaða starf, 3 mánuðir, uppsögn skal vera um mánaðamót.

 

Eftir 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki öðlast starfskraftur við;

  • 55 ára aldur - 4 mánaða uppsagnarfrest, uppsögn skal vera um mánaðamót.
  • 60 ára aldur - 5 mánaða uppsagnarfrest, uppsögn skal vera um mánaðamót.
  • 63 ára aldur - 6 mánaða uppsagnarfrest, uppsögn skal vera um mánaðamót.

Starfsfólk sem hefur öðlast fjögurra til sex mánaða uppsagnarfrest skv. kjarasamningi, getur sagt starfi sínu lausu með þriggja mánaða fyrirvara en að öðru leyti er uppsagnarfrestur gagnkvæmur.

Atvinnurekanda ber að greiða áunnið ógreitt orlof við starfslok. Atvinnurekandi þarf einnig að greiða orlofs- og desemberuppbætur í samræmi við starfstíma og starfshlutfall. Áunnar uppbætur skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

Skylt er að vinna lögbundinn uppsagnarfrest, nema um annað sé sérstaklega samið. Allar uppsagnir skulu vera skriflegar og gerðar á sama tungumáli og ráðningarsamningur starfskrafts. Við uppsagnir gilda reglur um framkvæmd og lengd uppsagnarfrests sem báðir aðilar verða að virða. Að jafnaði þarf hvorki starfsfólk né atvinnurekandi að rökstyðja ákvörðun sína um ástæðu uppsagnar nema hvað varðar nokkra hópa eða tilvik þar sem uppsagnarvernd er tiltekin í lögum, sjá nánar takmarkanir á uppsögnum. 

Réttur til viðtals um starfslok
Starfsfólk á rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnar. Beiðni um viðtal skal koma fram innan fjögurra sólarhringa frá því uppsögn er móttekin og skal viðtal fara fram innan fjögurra sólarhringa þar frá. Starfskrafturinn getur óskað þess þegar að loknu viðtali eða innan fjögurra sólarhringa að ástæður uppsagnar séu skýrðar skriflega. Fallist atvinnurekandi á þá ósk hans, skal við því orðið innan fjögurra sólarhringa þar frá.

Fallist atvinnurekandi ekki á ósk starfskrafts um skriflegar skýringar, á starfskraftur innan fjögurra sólarhringa rétt á öðrum fundi með atvinnurekanda um ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef starfskraftur óskar þess.