Kynferðisleg áreitni

Gerðu þeim sem áreitir þig ljóst, á ótvíræðan hátt, að þú sættir þig ekki við þessa framkomu. Hafðu hugfast að áreitnin er ekki þér að kenna og þú berð ekki ábyrgð á henni.

Ekki leyna ástandinu heldur skráðu nákvæmlega hjá þér hvað gerist hverju sinni ef mögulegt er og fáðu vitni til að skrá atferlið. Fylgstu með hvort einhverjar breytingar verða á verkefnum þínum og aðgættu hvort sá sem áreitir þig breytir afstöðu sinni til þín. Kannaðu hvort áreitnin hafi einhvern tilgang og þá hvern. Kannaðu einnig hvort einhver vinnufélagi þinna hefur orðið fyrir sams konar áreitni og ef svo er, ræddu þá við hann um málið.

Gerðu gerandann sýnilegan

Aflaðu þér stuðnings meðal annarra vinnufélaga sem einnig hafa orðið fyrir áreitni og/eða geta e.t.v. verið vitni. Gerðu yfirmanni þínum grein fyrir ástandinu, annaðhvort beint aða í gegnum þriðja aðila og ræddu áreitnina af hreinskilni við trúnaðarmann, starfsmannastjóra, stéttarfélagið eða leitaðu til skrifstofu jafnréttismála.

Ekki standa ein(n) í baráttunni - þá ertu dæmd(ur) til að tapa. Gerðu gerandann sýnilegan.

VR til aðstoðar

Hjá VR er starfandi þriggja manna teymi sem tekur á málum sem tengjast kynferðislegu áreitni og öðrum samskiptavandamálum.

Sjá reglugerð aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Hafðu samband við VR í síma 510 1700 og fáðu nánari upplýsingar og aðstoð.

Kynferðisleg áreitni getur m.a. birst sem:

  • Óæskileg líkamleg snerting, viðkoma eða klapp
  • Óvelkomnar aðdróttanir, brandarar, athugasemdir um útlit og grófur munnsöfnuður
  • Tvíræð og niðurlægjandi tilboð
  • Klámmyndir á vinnustað
  • Krafa um kynferðislegt endurgjald
  • Líkamleg valdbeiting

Kynferðisleg áreitni getur leitt til:

  • Streitu og reiði
  • Þunglyndis
  • Svefnleysis og streitutengdra sjúkdómseinkenna, svo sem höfuðverks, húðvandamála, meltingartruflana o.fl.