Bakvaktir

Heimilt er að setja á bakvaktir þar sem starfskrafti er skylt að vera í símasambandi eftir að hafa lokið sínum hefðbundna vinnutíma. Bakvakt getur svo leitt til þess að starfsmaður þurfi að gera eitthvað, þurfi að bregðast við. Er þá í flestum tilfellum um að ræða útkall. Hættir viðkomandi þá á bakvaktagreiðslum en fær greitt útkall.

Eftirtalin atriði eiga bæði við samninga VR við SA og FA:

Sé ekki um annað samið í ráðningarsamningi gildir eftirfarandi:

  • Fyrir hverja klukkustund á bakvakt þar sem vakthafandi starfskraftur er bundinn heima fær hann greitt sem svarar 33% dagvinnustundar en 50% á almennum frídögum og stórhátíðum.
  • Fyrir bakvakt þar sem ekki er krafist tafarlausra viðbragða af hálfu starfskrafts en hann er tilbúinn til vinnu strax og til hans næst, greiðist 16,5% af dagvinnukaupi fyrir hverja klst. á bakvakt. Á almennum frídögum og stórhátíðum verður ofangreint hlutfall 25%.
  • Fyrir útkall á bakvakt skal starfskraftur fá greitt fyrir unninn tíma, þó að lágmarki 4 klst., nema dagvinna hefjist innan tveggja stunda frá því að hann kom til vinnu. Bakvaktargreiðslur og eftir-/yfirvinnugreiðslur fari þó aldrei saman.
  • Þegar starfskraftur er á bakvakt er hann til taks fyrir atvinnurekandann og telst bakvakt því til vinnutíma hvað varðar vikulegan frídag, hvort sem starfskraftur er kallaður út eða ekki. Sjá nánar hér um vikulegan frídag.
  • Sé starfskraftur kallaður út þarf einnig að gæta að daglegri hvíld. Dagleg hvíld skal vera að lágmarki 11 klukkustundir á sólarhring, sjá nánar hér um vikulegan frídag.
  • Ef starfsfólk er í fjarvinnu og kallað út á bakvakt og þarf því ekki að mæta á starfsstöð til úrlausnar verkefna, hættir viðkomandi á bakvakt þann tíma sem verkefnin eru leyst og fær fyrir það tilheyrandi tímakaup (yfirvinnu ef starfskraftur er í 100% starfi) greitt fyrir þann tíma sem það tekur að leysa verkefnið. Að því loknu taka bakvaktargreiðslur aftur við. Starfsfólk þarf að halda vel utan um þessa tíma og skrá hjá sér svo það fái greitt fyrir þá vinnu sem það sinnir á bakvakt. Í þessum tilfellum er rétt að benda á að gæta þarf að hvíldartíma rétti starfsfólks. Vert er að hafa í huga að samkvæmt kjarasamningi er lágmarksvinnutími um helgar 4 klst. svo ef starfskraftur er kallaður í verkefni um helgi greiðast minnst 4 klst. fyrir þá vinnu, hversu lengi sem verkefnið varir.

Bakvaktir samkvæmt samningi VR og FA

Heimilt er að semja um bakvaktir þar sem starfsmanni er skylt að vera í símasambandi og að sinna útköllum, og skal þá greiða 1/3 dagvinnulauna fyrir hverja klst. á bakvakt nema um annað sé samið í ráðningarsamningi.

Sinni starfsmaður bakvakt á stórhátíðardögum skal hann fá ofangreint hlutfall á yfirvinnukaupi.

Er fyrirtækið þitt að greiða skv. samningi VR og SA eða VR og FA?

Þú getur séð eftir hvaða samningi þitt fyrirtæki er að greiða á Mínum síðum.