Eftir- og yfirvinna

Eftir- og yfirvinna skv. samningi VR og SA

Vinna utan dagvinnutímabils telst eftirvinna upp að fullri dagvinnu, þ.e. 171,15 klst. hjá afgreiðslufólki en 162,5 klst. hjá skrifstofufólki. Vinna umfram það telst yfirvinna.

Heimilt er að gera skriflegt samkomulag um annað skipulag vinnutíma innan dagvinnutímabils með þeim hætti að starfsmaður skili vinnu innan dagvinnutímabils umfram fulla vinnu og safni þeim umframtímum í heila og hálfa daga til frítöku á launum síðar.

Yfirvinna skv. samningi VR og FA

Yfirvinna er vinna sem fer fram yfir hinn venjulega dagvinnutíma og á helgum dögum og laugardögum.

Ekki er eftirvinna samkvæmt samningi VR og FA.

Heimilt er að greiða fyrir störf sem eru unnin utan dagvinnutíma með fríum á dagvinnutímabili. Þá jafngildir 1 klst.í yfirvinnu alls einni klst. og 48 mínútum í dagvinnu.

Frídagar og stórhátíðir

Frídagar eru helgidagar þjóðkirkjunnar, þ.e. skírdagur, annar í páskum, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu og annar í jólum, auk sumardagsins fyrsta og 1. maí.

Stórhátíðarvinna er vinna á nýársdegi, föstudeginum langa, páskadegi, hvítasunnudegi, 17. júní, frídegi verslunarmanna, jóladegi og eftir kl. 12:00 á aðfangadegi og gamlársdegi.