Styrkir

Í Sjúkrasjóð VR getur félagsfólk sótt styrk vegna glasafrjóvgunar og vegna ferðakostnaðar. Sjá nánari upplýsingar varðandi styrkina hér að neðan. Athugið að styrkir úr Sjúkrasjóði eru ekki veittir til líkamsræktar (sjá um VR varasjóð).

Greiðslukvittun þarf að fylgja umsókn og má vera allt að 12 mánaða. Greiðslukvittun verður að vera með stimpli viðkomandi fyrirtækis og nafni og kennitölu VR félaga.

Greiðslur úr sjóðnum eru almennt staðgreiðsluskyldar og er staðgreiðsla dregin af fjárhæð fyrir útborgun. Staðgreiðsla skatta er tekin af styrkupphæð úr Sjúkrasjóði VR, skv. skattþrepi 1. Við viljum benda félagsfólki, sem er með mikinn kostnað vegna veikinda, á að möguleiki er að sækja um lækkun á staðgreiðslu hjá RSK.
- Sjá nánar hér.

Styrkir vegna glasafrjóvgunar

VR veitir fullgildu félagsfólki sínu styrk vegna glasafrjóvgunar / tæknifrjóvgunar og ættleiðingar. Styrkurinn er að hámarki kr. 200 þúsund krónur fyrir hvern VR félaga. (Ath. þegar félagi hefur fengið hámarksgreiðslu kr. 200.000.- vegna glasafrjóvgunar endurnýjast rétturinn ekki.) Athugið að styrkurinn er staðgreiðsluskyldur. Greiðslur iðgjalda þurfa að hafa borist í 6 mánuði samfellt fyrir upphafsdag meðferðar sem sótt er um.

Styrkir vegna ferðakostnaðar

Sé félagsfólk VR sent af heilsugæslulækni til sérfræðiþjónustu, rannsókna eða aðgerða innanlands, utan læknishéraðs (að lágmarki 50 km) og ekki koma til greiðslur ferðakostnaðar frá Sjúkratryggingum Íslands, endurgreiðir sjúkrasjóður ferðakostnað VR félaga og fylgdarmanns hans ef læknir telur þörf á honum og vegna barns VR félaga og fylgdarmanns barns, að hámarki kr. 150 þúsund fyrir hvern félaga á hverju almanaksári.

Með umsókn þurfa að fylgja bréf um höfnun á ferðakostnaði frá Sjúkratryggingum Íslands, staðfesting læknis á komu, kvittun fyrir fargjaldi; ef farið er á eigin bíl er greitt skv. reiknireglu Sjúkratrygginga Íslands.

VR varasjóður

Félagsfólk VR hefur aðgang að eigin sjóði, VR varasjóði, sem gefur þeim meira frjálsræði og meiri sveigjanleika. Í varasjóðinn renna þeir fjármunir sem áður voru notaðir til styrkja af ýmsu tagi úr Sjúkrasjóði s.s. til líkamsræktar eða gleraugnakaupa og tiltekinn hluti af iðgjöldum í orlofssjóð.