imageAlt
01
maí

VR hvetur félagsmenn og landsmenn alla að fjölmenna í kröfugöngum og taka þátt í hátíðarhöldum í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi launafólks þann 1. maí.

Kröfuganga og kaffi í Reykjavík

Í Reykjavík verður farin kröfuganga sem endranær. Safnast verður saman á Hlemmi kl. 13:00 og gengið niður Laugaveg sem leið liggur á Ingólfstorg þar sem útifundur verður haldinn. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika fyrir göngu og ræðumenn flytja örræður. Útifundurinn hefst kl. 14:10 og honum lýkur kl. 15:00.

Að útifundi loknum býður VR félagsmenn velkomna til kaffisamsætis í anddyri Laugardalshallar.

Upphitun á Klambratúni

Í Reykjavík hitar VR upp fyrir kröfugönguna á Klambratúni kl. 11:00. Um er að ræða 1,5 km létta og skemmtilega leið í kringum Klambratún. Sóli Hólm verður kynnir en meðal þeirra sem koma fram er Emmsjé Gauti.

Að loknu hlaupinu verða grillaðar pylsur og hægt verður að útbúa sitt eigið kröfuspjald. Þátttaka ókeypis og allir fá verðlaunapening. Láttu okkur vita hvort þú mætir!

Hátíðardagskrá á Akranesi

Á Akranesi verður safnast saman við Kirkjubraut 40, kl. 14:00 og genginn hringur á neðri-Skaga. Undirleik í göngu annast Skólahljómsveit Akraness. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness á 3ju hæð Kirkjubrautar 40.

1. maí á Selfossi

Á Selfossi verður safnast saman við hús stéttarfélaganna, Austurvegi 56, kl. 11:00 og gengið að Hótel Selfoss við undirleik Lúðrasveitar Selfoss. Félagar úr Sleipni fara fyrir göngunni á hestum. Að göngu lokinni verður hátíðardagskrá haldin innandyra á Hótel Selfoss.