Hvernig á að kjósa trúnaðarmann?

Starfsfólk á vinnustaðnum kýs sér trúnaðarmann til tveggja ára í senn. Kosning fer fram í samráði við VR en trúnaðarmaðurinn fær staðfestingu á kjöri og umboð sitt frá félaginu.

Allir vinnustaðir með fimm eða fleiri VR félaga mega kjósa trúnaðarmann og ef þeir eru fleiri en 50 má kjósa tvo, ef fjöldi félagsfólks er fleiri en 120 á sömu starfsstöð er heimilt að kjósa þrjá trúnaðarmenn.

Kosningar trúnaðarmanna

Ef þú vilt koma á kosningu á þínum vinnustað hafðu samband við þjónustuver VR í síma 510 1700 og starfsmenn VR munu aðstoða þig.

Í samningum og lögum eru ekki fyrirmæli um kosningu trúnaðarmanns, en það er þó talið æskilegt að fram fari skrifleg, leynileg kosning á áður auglýstum tíma þannig að allir sem eiga rétt á að kjósa geti kosið. Æskilegt er að starfsmaður og/eða fulltrúi stéttarfélagsins hafi umsjón með kosningunni. Þegar kosningu er lokið er val trúnaðarmanns lagt fyrir stjórn félagsins sem staðfestir kjör hans. Fyrirtækinu og trúnaðarmanninum sjálfum er sent bréf þessu til staðfestingar.

Ef aðeins er stungið upp á einum starfsmanni til að gegna starfi trúnaðarmanns er hann sjálfkjörinn. Ef um fleiri er að ræða skal fara fram kosning milli aðila.

Fyrirkomulag kosninga

Þegar fyrirhuguð er kosning trúnaðarmanns kemur fulltrúi frá VR og hengir upp veggspjald eða sendir rafræna auglýsingu út á tengilið, þar koma eftirfarandi upplýsingar:

  • Heiti vinnustaðarins
  • Hvenær er kosið (dagsetning)
  • Hvenær er kosið (tímasetning, 1-2 klst., fer eftir stærð vinnustaðarins)
  • Nafn tengiliðs sem tekur á móti framboðum og ábendingum.

Þegar frestur til að tilkynna framboð er útrunninn er hægt að óska eftir aðstoð frá starfsfólki VR við aðstoða við kosningu. Einnig höfum við tekið í notkun rafrænt kosningakerfi. Fyrir verður að liggja listi yfir starfsmenn í VR.

Sá aðili sem er kosinn fyllir út eyðublað frá VR þar sem fram koma upplýsingar um vinnustaðinn, hvenær kjör fór fram og nafn, símanúmer og netfang trúnaðarmannsins. Eyðublaðið er lagt fyrir stjórn VR til samþykktar.

Nánari upplýsingar veita tengiliðir trúnaðarmanna. Hægt er að senda þeim tölvupóst á netfangið trunadarmenn@vr.is