logo

Covid-19 og hagkerfið

Árið 2019 lækkaði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hagvaxtaspá sína fyrir heimshagkerfið vegna 2020 í tvígang m.a. vegna viðskiptastríðs. Í júní gaf stofnunin út nýja spá fyrir 2020 og 2021 og gerir ráð fyrir 6% samdrætti í ár og 5,1% hagvexti 2021. Ef það verður önnur bylgja af Covid-19 spáir OECD að hagvöxtur verði -7,6% á þessu ári og einungis 2,8% árið 2021. Þetta er töluverð breyting frá bráðabirgðaspá stofnunarinnar í byrjun mars sem hljóðaði uppá 2.4% hagvöxt árið 2020 en 1,5% ef illa tækist að ná tökum á veirunni.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birti einnig hagvaxtaspá í apríl 2020. Gangi þeirra spá eftir verður heimshagvöxtur árið 2020 neikvæður um 3%. Í grunnspáni er gengið út frá því að faraldurinn verði að mestu yfirstaðinn á síðari hluta 2020 og að hagkerfi taki við sér sem leiðir til 5.8% hagvaxtar 2021. Árangursríkir björgunarpakkar munu þó skipta mjög miklu máli til að slík spá gangi eftir að mati stofnunarinnar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn birtir einnig þrjár sviðsmyndir til viðbótar við grunnspánna þeirra. Samkvæmt sviðsmyndunum er hætta á mun dýpri kreppu ef úbreiðsla veirunnar tekur lengri tíma og/eða ef ný bylgja veirunnar á sér stað 2021.

Sviðsmynd Hagvöxtur 2020
Grunnsviðsmynd -3%
50% lengri tími útbreiðslu veirunnar -6%
Ný bylgja 2021 -8%
Lengri tími útbreiðslu og ný bylgja 2021 -11%

Spá OECD fyrir Ísland

OECD birtir tvær spár fyrir Ísland. Önnur spáin sýnir áhrifin ef Covid-19 gengur yfir í einni bylgju en svartari spáin sýnir áhrifin er það verður önnur bylgja af veirunni. Ef veiran gengur yfir í einni bylgju gerir stofnunin ráð fyrir samdrætti uppá 10% á þessu ári og 4,6% hagvexti á því næsta. Fari svo að það verði önnur bylgja af veirunni verður samdrátturinn ögn meiri eða um 11% og hagvöxtur 2021 3%. Í samanburði spári Seðlabanki Íslands 8% samdrætti í ár og 4,8% hagvexti á næsta ári.


Kórónuveiran hefur þegar haft töluvert áhrif á efnahagslíf landa. Vísitala sem gefur vísbendingu um stöðu efnahagslífsins, PMI vísitalan (e. Composite PMI output Index), sýnir að verulega hafi hægt á efnahagslífi heimsins. Vísitalan er uppbyggð á þann hátt að gildið 50 þýðir að núverandi mánuður var jafn góður og fyrri mánuður. Gildi undir 50 þýðir að núverandi mánuður var verri en mánuðurinn á undan. Þannig þýðir 50 ekki að staðan sé góð, heldur aðeins jafn góð og í mánuðinum á undan.

PMI vísitölur fyrir Kína, Evrusvæðið, Bretland og Bandaríkin eru sýndar á grafinu að neðan. Niðursveiflan byrjaði fyrr í Kína en hinum hagkerfunum. Strax í mars tók kínverska hagkerfið við sér en þá mældist vísitalan yfir 50. Kínverska hagkerfið hélt áfram að vaxa í apríl mánuði samanborið við marsmánuð. Staðan er þó ekki eins björt fyrir hin hagkerfin. Vísitölurnar gefa vísbendingu um mjög mikinn samdrátt í það minnsta á 1. og 2. ársfjórðungi þessa árs. Gögn fyrir maí benda til þess að stað milli apríl og maí hafi haldið áfram að versna þó hægt hafi á samdrættinum. Samband PMI vísitölunnar við hagvöxt viðkomandi lands hefur alla jafna verið nokkuð sterkt. Þannig má gera ráð fyrir umtalsverðum samdrætti á fyrri helming ársins 2020 á Evrusvæðinu, Bretlandi og Bandaríkjunum.Avinnuleysi í kjölfar Covid á Íslandi

Kórónuveiran hefur stöðvað atvinnustarfsemi fjölmargra fyrirtækja í nær öllum atvinnugreinum. Tekjutap fyrirtækja leiddi til töluverðra uppsagna í mars og apríl auk þess að fjölmargir fóru í úrræði stjórnvalda um minnkað starfshlutfall. Faraldurinn hefur ekki aðeins komið misvel niður á fyrirtækjum. Grafið að neðan sýnir breytingu á atvinnuleysi eftir nokkrum hópum. Til að mynda hefur faraldurinn komið verst niður á einstaklingum 50 ára og eldri. Hvað menntun varðar hafa einstaklingar sem lokið hafa iðnnámi orðið verst úti.


Atvinnuleysi mun að öllum líkindum lækka á næstu mánuðum en gæti aukist aftur töluvert frá og með ágúst. Stjórnvöld hafa tekið að sér að greiða laun starfsfólks á uppsagnarfresti í allt að þrjá mánuði fyrir fyrirtæki sem misst hafa að lágmarki 75% tekna sinna. Þegar fyrirtæki fara þessa leið eru starfsmenn þess ekki lengur skráðir í minnkað starfshlutfall en koma aftur inn á atvinnuleysisskrá í lok sumars þegar þriggja mánaða uppsagnarfresti lýkur.

Unga fólkið og Covid

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) telur hættu á að Covid-19 faraldurinn kunni að hafa skaðleg áhrif til frambúðar á stöðu ungs fólks í heiminum. Áhrif faraldursins á menntun fólks yngra en 25 ára, störf þess og starfsferil eru að mati stofnunarinnar meiri og alvarlegri en á aðrar kynslóðir.

Um helmingur námsmanna á heimsvísu telur líklegt að töf verði á námsframvindu þeirra vegna Covid faraldursins samkvæmt nýlegri könnun ILO og einn af hverjum tíu býst jafnvel ekki við að ljúka því námi sem hann var í áður en faraldurinn hófst. Áður en faraldurinn skall á starfaði ungt fólk í meira mæli en þeir eldri í atvinnugreinum sem eru að verða hvað harðast úti í þessum faraldri. Atvinnuleysi meðal ungs fólks fyrir Covid var þegar mun meira en meðal þeirra sem eldri eru, árið 2019 var skráð atvinnuleysi meðal ungs fólks að meðaltali 13,6% í heiminum öllum. Bráðabirgðatölur benda til þess að atvinnuleysi meðal ungs fólks, einkum ungra kvenna, hafi stóraukist frá því í febrúar á þessu ári og atvinnuþátttaka þeirra stórminnkað. Stór hluti ungmenna á þessum aldri vann í hinu óformlega hagkerfi (e. informal jobs) en þau störf njóta ekki sömu verndar og hefðbundin, launuð störf.

Í kjölfar Covid faraldursins má búast við fleiri og stærri hindrunum fyrir atvinnuþátttöku ungs fólks en áður. Faraldurinn hefur þegar truflað framvindu náms og þjálfunar sem kann að draga úr atvinnutækifærum og tekjumöguleikum þeirra í framtíðinni. Nemendur sem útskrifast nú, í faraldri og efnahagslægð, fá færri starfstækifæri og eru í viðkvæmari stöðu á vinnumarkaði en fyrri útskriftarárgangar. Sjá umfjöllun ILO hér.Mælaborð

Mælaborðið er samansafn af haggögnum sem við teljum bæði áhugaverð og mikilvæg og gefa góða innsýn í íslenskt efnahagslíf.