Helga Guðrún Jónasdóttir

Fæðingardagur og -ár
6. desember 1963.

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni.

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
Ég er um þessar mundir nemandi í vefmiðlun við Háskóla Íslands og hef samhliða náminu sinnt ýmsum hlutastörfum í afgreiðslu og þjónustu hjá Lyfju hf. Ég er stjórnmála- og fjölmiðlafræðingur að mennt.

Netfang: postur@helgagudrun.com

Blogg: helgagudrun.com

Facebook: Helgu Guðrúnu í formann VR

Smelltu hér til að horfa á kynningarmyndband Helgu Guðrúnar


Reynsla af félagsstörfum

Ég er svo heppin að hafa fengið mörg skemmtileg tækifæri á vettvangi félagsmála. Svo að stiklað sé á því helsta, þá hef ég verið formaður Kvenréttindafélags Íslands og Landssambands sjálfstæðiskvenna, varaformaður Almannatengslafélags Íslands og stjórnarmaður m.a. í Samtökum auglýsenda og Landvernd. Ég hef átt sæti í ýmsum nefndum og ráðum hjá Kópavogsbæ, þar á meðal í félagsmálaráði, lista- og menningarráði og janfréttisnefnd. Ég hef starfað í markaðs- og kynningarmálum undanfarin 30 ár ýmist sem upplýsingafulltrúi, ráðgjafi, kynningarstjóri eða samskiptastjóri.


Helstu áherslur

  • Ég vil efla VR og setja nýjan kraft í kjarabaráttuna. Ég vil að kjarabarátta okkar skili kaupmáttaraukningu og raunverulegum kjarabótum.
  • Ég vil skilja á milli stjórnmálastarfs og VR. Flokkapólitík á heima á Alþingi.
  • Ég vil breikka umræðuna um lægstu laun og tengja neðstu launaþrep við lágmarksframfærslukostnað. Allir eiga að geta lifað á launum sínum.
  • Ég vil að við festum norræna kjarasamningalíkanið betur í sessi, undirstöðu norræna velferðarkerfisins.
  • Ég vil að við öxlum ábyrgð í loftslagsmálum. Okkur ber skylda til að skjóta sjálfbærum stoðum undir efnahags- og atvinnulíf landsmanna.
  • Ég vil að VR standi vörð um það góða orðspor sem þetta frábæra 130 ára stéttarfélag býr að.
  • Ég vil að VR verði áfram stærsta og öflugasta stéttarfélag landsins með breiðan hóp launafólks innanborðs. VR á að vera í þágu allra VR-félaga.

Kæru VR félagar

Mig langar að byrja á því að þakka ykkur fyrir frábærar viðtökur síðustu vikurnar. Þetta hefur verið skemmtileg og gefandi kosningabarátta út af öllum þeim frábæru símtölum sem ég hef átt við félagsmenn. Takk fyrir að deila með mér sýn ykkar á þetta stórkostlega stéttarfélag okkar, hvað við höfum verið að gera vel og hvað við getum gert betur. Lengi getur gott batnað 😊

Framboð mitt stendur fyrir skýra sýn á VR.

Við erum í stærsta og öflugasta stéttarfélagi landsins og þannig viljum við hafa það.

Við erum stór og öflug vegna þess að félagið okkar spannar mikla breidd í launum og menntun og þessum árangri höfum við náð vegna þess að félagið hefur lagt áherslu á góða og breiða þjónustu við félagsmenn.

Stéttarfélagið þitt á að vinna fyrir þig. Ég sé mörg áhugaverð sóknarfæri til að gera betur í þjónustu við félagsmenn og efla með því móti félagið okkar. Ég tel að við eigum vannýtt sóknarfæri í kjarabaráttunni, hjá millitekjufólki, ekki hvað síst lægri millitekjuhópum félagsins, sem hafa mátt þola hlutfallslega mestu kaupmáttarskerðinguna í samanburði við þróun lægstu launa. Þá tel ég brýnt að rétta við markaðslaunakerfi VR, sem hefur verið helsta sérstaða félagsins og lykillinn að jákvæðri launaþróun innan VR.

Ég hef einnig verið að ræða mikið við félagsmenn um varasjóðinn okkar. Hann er augljóslega ekki að nýtast stórum hluta félagsmanna nógu vel. Hér er því að mínu mati augljóst sóknarfæri til að gera betur, s.s. með endurgreiðslum vegna kostnaðar við gleraugu og sálfræðiþjónustu, svo að dæmi séu tekin.


 

 

Við þurfum að berjast fyrir styttingu vinnuvikunnar, sterkari sjúkrasjóð – sem kominn er úr 9 mánuðum í 7 mánaða rétt, orlofsmálum og sumarbústöðum. Sóknarfærin til að gera betur eru mörg og brýn.

Kæri VR félagi. Framtíðin er núna. Við þurfum að einhenda okkur af fullum þunga í þróunarstarf vegna 4. iðnbyltingarinnar, en staðreyndin er sú að verulegar breytingar eru framundan á vinnumarkaðnum okkar í samsetningu og framboði starfa, ekki hvað síst störfum VR félaga. Þá munu aðgerðir vegna loftslagsbreytinga mjög líklega ýkja þessi áhrif, þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði í þessum efnum í breiðu samstarfi innan verkalýðshreyfingarinnar.

Kjaramálin í loftslagsmálum eru einnig vaxandi áhyggjuefni, en nauðsynlegum aðgerðum fylgir kostnaður sem má ekki falla eingöngu á launafólk. Umskiptin sem eru framundan verða að fara fram með réttlátum hætti og af virðingu við launafólk.

Áhyggjuefnin eru mörg fleiri og ljóst er að við verðum að standa fast á okkar næstu misserin, á meðan við erum að ná okkur upp úr COVID kreppunni. Þess vegna þurfum við stórt og öflugt VR. Þess vegna þurfum við stéttarfélag sem vinnur fyrir þig.
Mig langar mig að hvetja alla félagsmenn til að taka þátt í VR kosningunum 8. til 12. mars. Tveir skýrir valkostir eru í boði til formanns. Það er því um að gera að nýta lýðræðislegan rétt sinn og kjósa.

Ég væri afar þakklát fyrir stuðning þinn.

Áfram VR!