Helga Ingólfsdóttir

Fæðingardagur og -ár
13. desember 1961.

Félagssvæði
Reykjavík og nágrenni.

Vinnustaður, starfsheiti og menntun
Ég starfa sem bókari og bæjarfulltrúi. Ég bý að fjölbreyttri starfsreynslu, rak eigið fyrirtæki um árabil og hef góða reynslu af rekstri og stjórnun. Ég var einnig framkvæmdastjóri í innflutningsfyrirtæki í nokkur ár, hef starfað við verslunarstörf og ýmis bankastörf í hlutastarfi meðfram barnauppeldi. Ég lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands, Rekstrar og viðskiptanámi frá Endurmenntun Háskóla Íslands og fékk réttindi sem Viðurkenndur bókari árið 2019.


Netfang: helgai@hafnarfjordur.is
Facebook: Helga Ingólfsdóttir


Reynsla af félagsstörfum 

Ég hef setið í Stjórn VR frá árinu 2013 og sinnt fjölmörgum nefndar og trúnaðarstörfum fyrir félagið. Hef verið fulltrúi stjórnar í samninganefnd og formaður Umhverfisnefndar VR síðustu ár og sit sem fulltrúi VR í Miðstjórn ASÍ. Kjörin af fulltrúaráði VR í stjórn Lífeyrissjóðs Verslunarmanna frá árinu 2019.

Ég hef gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn um árabil, var formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði frá 2007-2010 og varafomaður Kjördæmisráðs á sama tíma. Ég hef verið bæjarfulltrúi fyrir Hafnarfjarðarbæ frá 2010 og er formaður Umhverfis- og framkvæmdaráðs og varaformaður Fjölskylduráðs. Stjórnarmaður í Stjórn Strætó fyrir Hafnarfjarðarbæ og félagi í Gildinu, félagskap eldri skáta í Hafnarfirði.


Helstu áherslur

Ég hef notið trausts félagsmanna til setu í stjórn VR frá árinu 2013. Á þessum árum hef ég öðlast dýrmæta reynslu sem mig langar að nýta áfram til hagsbóta fyrir félagsmenn fái ég til þess brautargengi. Ég hef í störfum mínum sem stjórnarmaður haft að leiðarljósi grunngildi mitt sem er jafnrétti í víðasta skilningi þess orðs. Jafnlaunavottun VR sem veitt var í fyrsta sinn árið 2013 dró mig að félaginu og varðandi launamun kynjanna er enn verk að vinna. Barátta fyrir betri kjörum er viðvarandi verkefni sem tekur stöðugum breytingum í takt við þróun samfélagsins á hverjum tíma. Við viljum öll betri lífskjör án þess að ganga á hag komandi kynslóða og með því að skoða vel og heildstætt hvað er til skiptanna á hverjum tíma er hægt að ná góðum árangri í kjarasamningum. Lífskjarasamningur 2019-2022 er heildstæður samningur sem tekur á mörgum þáttum og ég tel mikilvægt að áfram verði unnið heildstætt að því að kjör félagsmanna VR endurspegli virði vinnuframlagins og hlutdeild í þeirri virðisaukningu sem þeir skapa með störfum sínum. Framundan eru stórar áskoranir sem snúa að áhrifum tæknibreytinga á störf í öllum geirum atvinnulífsins. Tryggja þarf hagsmuni okkar þannig að hlutfallslegur ábati af hagræðingu sem felst í aukinni tæknivæðingu skili sér til félagsmanna og samfélagsins. Mikilvægur liður í því er að auka vinnustaðalýðræði og tryggja aðkomu starfsmanna að stefnumótun og ákvarðanatöku.

Sveigjanleg starfslok og lífeyrisréttindi eru hagsmunamál sem alla varðar. Upplýst umræða um lífeyrismál og skoðun á fyrirkomulagi og réttindastöðu þarf að fá aukið vægi í upplýsingagjöf félagsins til félagsmanna.