120 ár síðan fyrsta konan gekk í VR

Fréttir - 03.11.2020
120 ár síðan fyrsta konan gekk í VR

Það var á þessum degi fyrir 120 árum, þann 3. nóvember árið 1900, sem fyrsta konan fékk inngöngu í VR. Frú Laura Hansen rak verslun með eiginmanni sínum Johannesi Hansen að Austurstræti 3. Þegar Johannes lést árið 1899 fertugur að aldri sætti frú Laura sig ekki við að standa utan félagsins að manni sínum látnum. Hún sótti því um inngöngu í félagið haustið 1900, þó slíkt væri í raun ekki heimilt samkvæmt lögum félagsins. Það var svo á félagsfundi þann 3. nóvember árið 1900 sem umsókn hennar var samþykkt eftir miklar umræður. Var um það rætt á fundinum að það þyrfti að klára lagabreytingavinnu sem hafin hafði verið þannig að réttur kvenna til að ganga í Verzlunarmannafélag Reykjavíkur yrði staðfestur í lögum og ótvíræður. Var það svo gert og sú breyting gerð ári seinna, á félagsfundi þann 2. febrúar árið 1901.

Það er því stórmerkilegt að frú Hansen hafi með festu og af ákveðni náð að fá félagsaðild sína samþykkta ári áður en slíkt var í raun heimilt samkvæmt lögum félagsins. Það er líka skemmtilegt frá því að segja að hundraðasti félaginn sem gekk í félagið árið 1904 var einmitt líka kona, fröken Ragnheiður Hall, en þá voru fyrir í félaginu fimm aðrar konur.