44. þingi ASÍ frestað til vors

Fréttir - 21.10.2020
44. þingi ASÍ frestað til vors

44. þingi Alþýðusambands Íslands var frestað nú á fjórða tímanum í dag. Eingöngu brýn mál voru afgreidd á þinginu, þar á meðal skýrsla forseta, afgreiðsla reikninga og kosið í embætti. Þá var tillaga um að fjölga varaforsetum úr tveimur í þrjá samþykkt. Stefnt er að framhaldi þings næsta vor.

Drífa Snædal var endurkjörin forseti ASÍ, Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands var endurkjörinn 1. varaforseti, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar var endurkjörin 2. varaforseti og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var kjörinn 3. varaforseti.

Kristján Þórður Snæbjarnarson setti þingið kl. 10:00 í morgun en að því loknu ávarpaði þingið Drífa Snædal, forseti ASÍ. Drífa sagði markmið verkalýðshreyfingarinnar skýr en þau væru bætt lifskjör og betra samfélag. Þá sagði Drífa að verkalýðshreyfingin hafni launalækkunum og frystingu launa og að áfram verði barist fyrir hækkun atvinnuleysisbóta.

Að auki fluttu ávörp Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Ástþór Jón Ragnheiðarson, varaformaður ASÍ-UNG.