6,1% hækkun heildarlauna milli ára

Launakönnun - 08.05.2018
6,1% hækkun heildarlauna milli ára

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu um 6,1% milli janúar 2017 og janúar 2018, samkvæmt launakönnun VR fyrir árið 2018. Grunnlaun hækkuðu um 5,9%. Kynbundinn launamunur mælist nú 10% en var 11,3% á síðasta ári. Breytingin á milli ára er ekki marktæk. Vinnutíminn styttist og er nú 42,9 stundir en var 43,2 stundir á síðasta ári.

Heildarlaun félagsmanna VR voru um 668 þúsund krónur á mánuði að meðaltali í janúar á þessu ári og hækkuðu um 6,1% frá janúar 2017 en þá voru þau um 630 þúsund. Grunnlaun voru um 622 þúsund og hækkuðu um 5,9% frá janúar 2017 þegar þau voru 588 þúsund. Launavísitala VR, sem mælir breytingar á launum félagsmanna yfir lágmarkslaunum, hækkaði um 6,25% á sama tímabili en kjarasamningsbundnar launahækkanir voru 4,5% (frá 1. maí 2017).

Launamunur kynjanna óbreyttur

Munur á heildarlaunum karla og kvenna er nú 13,4% en kynbundinn munur, þegar búið er að taka tillit til helstu áhrifaþátta á laun, er 10% samanborið við 11,3% í fyrra. Breyting milli ára er ekki marktæk og þarf að fara aftur til ársins 2001 til að sjá marktæka breytingu. 

Vinnuvikan styttist

Félagsmenn VR vinna að meðaltali 42,9 stundir á viku hverri og er þetta í fyrsta skipti sem vinnuvikan er styttri en 43 stundir í launakönnun félagsins. Lengst var hún um 45 stundir að meðaltali á árunum fyrir hrun. 

Nýjustu fréttir

Skrá mig á póstlista VR