Atvinnuleysistryggingasjóður dæmdur til að greiða dráttarvexti

Fréttir - 05.06.2019
Atvinnuleysistryggingasjóður dæmdur til að greiða dráttarvexti

Í dag, 5. júní 2019, féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, í máli VR gegn Atvinnuleysistryggingasjóði þar sem félagið krafðist þess að viðurkennt væri að félagsmenn VR sem þurftu að sæta ólögmætum skerðingum atvinnuleysisbóta á grundvelli laga sem sett voru árið 2014 fengju hinar vangoldnu bótagreiðslur greiddar með dráttarvöxtum. Málið vannst að fullu leyti VR í hag.

Eins og áður hefur verið greint frá hér á vefnum þá komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu í dómi 1. júní 2017 að afturvirk stytting tímabils atvinnuleysisbóta úr 36 mánuðum í 30 hafi verið óheimil. Atvinnuleysistryggingasjóði var því gert að greiða þær vangreiddu bætur en deilt var um hvort þær ættu að bera vexti samkvæmt sérreglu um vangreiddar atvinnuleysisbætur eða hvort þær skyldu bera dráttarvexti samkvæmt almennum reglum laga um vexti og verðtryggingu en það var krafa VR. Dómurinn í dag félst að fullu á kröfur VR um að Atvinnuleysistryggingasjóði sé skylt að greiða hinar vangoldnu bótagreiðslur félagsmanna okkar með dráttarvöxtum og auk þess er sjóðurinn dæmdur til að greiða félaginu málskostnað.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

Nýjustu fréttir

Skrá mig á póstlista VR