Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Vr Stafraenhaefni Vr Vefur 640X500 01

Almennar fréttir - 01.04.2020

Ert þú með þína stafrænu hæfni á hreinu?

Hvort sem við erum örugg í því að tengjast fundum í gegnum fjarfundarbúnað og versla matvöru á netinu eða ekki, þá er óhætt að segja að nú sé rétti tíminn til að huga að því hvort stafræn hæfni okkar standist samanburð við aðra.

VR fór af stað með verkefnið Stafræna hæfnihjólið undir lok síðasta árs en hjólið er sjálfsmatspróf sem tekur einstakling um 12-15 mínútur að þreyta. Prófið er öllum opið og hafa um 4.500 manns þegar lokið því þegar þetta er skrifað.
Meginmarkmið VR með Stafræna hæfnihjólinu er að gefa félagsmönnum kost á að kortleggja eigin stafrænu hæfni með það í huga að veita þeim mögulega sýn inn í þá þætti sem flokkast almennt undir stafræna hæfni. Að sjálfsmatsprófi loknu gefst þátttakanda færi á að sjá niðurstöður sínar með ráðleggingum á hvaða sviðum hann megi bæta sig og tillögur um hvernig það skal gert.

En hvað er stafræn hæfni?

Stafræn hæfni snýst fyrst og fremst um að geta beitt viðeigandi þekkingu og færni, en einnig að vera reiðubúin/n að endurskoða viðhorf sín og vera tilbúin/n að prófa nýja tækni. Notkun á stafrænni tækni nær til ýmissa viðfangsefna og er notuð í ýmsum tilgangi bæði í vinnu sem og í einkalífi, t.d. vegna náms, til að sækja um vinnu, versla á netinu, afla heilsufarsupplýsinga, taka þátt í samfélaginu o.s.frv. Efling stafrænnar hæfni stuðlar fyrst og fremst að því að styrkja mannauð og auka atvinnu- og samkeppnishæfni hvers og eins.

VR hvetur alla til þess að huga að því hvað þeir geta gert til að auka við þekkingu sína og styrkja sig á hinum ýmsu sviðum, nú er rétti tíminn!

Smelltu hér til að taka prófið!