Fyrirtæki ársins 2020

Fréttir - 14.05.2020
Fyrirtæki ársins 2020

Fyrirtæki ársins árið 2020 samkvæmt könnun VR hafa nú verið valin en alls fá fimmtán fyrirtæki þessa nafnbót í þremur stærðarflokkum. Það eru félagsmenn VR og þúsundir annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði sem velja fyrirtækin í einni viðamestu vinnumarkaðskönnun sem gerð er hér á landi en VR hefur staðið fyrir henni í rúm tuttugu ár. Fyrirtæki ársins 2020 eru sem hér segir (í stafrófsröð):

Þá fá fimmtán fyrirtæki í hverjum stærðarflokki titilinn Fyrirmyndarfyrirtæki 2020, þar með talin vinningsfyrirtækin sjálf. Sjá ítarlegri umfjöllun um Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtækin hér. Hér má svo sjá heildarlistana yfir fyrirtækin, í öllum þremur stærðarflokkum. Könnunin var gerð frá byrjun febrúar til síðari hluta mars og endurspeglar stöðuna eins og hún var á þeim tíma. Áhrifa Covid faraldursins á vinnumarkaðinn gætir því að mjög litlu leyti í þessum niðurstöðum.

Um könnunina

Könnun VR á Fyrirtæki ársins hefur tvíþættan tilgang. Í fyrsta lagi er hún samskiptavettvangur fyrir starfsfólk þar sem það getur hrósað því sem vel er gert en einnig bent á það sem betur má fara. Niðurstöðurnar veita stjórnendum mikilvægar upplýsingar um hvar úrbóta er þörf og eru þeim leiðarvísir um næstu skref. Þær sýna hvernig fyrirtækið kemur út í samanburði við önnur fyrirtæki, hvort og þá hvaða vanda er við að etja og um leið hvaða sóknarfæri fyrirtækið á. Viðurkenningarnar Fyrirtæki ársins og Fyrirmyndarfyrirtæki eru þannig til marks um hvernig stjórnendur standa sig í mannauðsmálum og innra starfsumhverfi starfsmanna.

Í öðru lagi gefa niðurstöðurnar VR skýra og viðamikla mynd af viðhorfum félagsmanna, og þúsunda annarra starfsmanna á vinnumarkaði, til vinnustaða sinna. Þær segja til um breytingar á líðan félagsmanna og viðhorfum þeirra, þróun helstu lykilþátta yfir ár og áratugi, bæði þegar vel gengur á vinnumarkaði og þegar gefur á bátinn. Þessar upplýsingar nýtast félaginu í hagsmunabaráttu sinni og kjarabaráttu og gefa VR færi á að meta hvaða áherslur eru nauðsynlegar hverju sinni.