Almennar fréttir - 09.06.2020

Guðrún Johnsen hagfræðingur ráðin til VR

VR hefur fengið öflugan liðsmann til starfa fyrir félagið en nýlega var gengið frá ráðningu Guðrúnar Johnsen hagfræðings í hlutastarf sem efnahagsráðgjafa VR.
Í starfi sínu hjá VR mun Guðrún vera formanni, framkvæmdastjóra og stjórn til ráðgjafar í rannsóknum og stefnumótun tengdum kjaramálum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir það mikinn feng fyrir starf og baráttu VR að hafa fengið Guðrúnu til liðs við félagið sem mun meðfram rannsóknarstörfum sínum á sviði rekstrarhagfræði, fjármála- og stjórnarhátta fyrirtækja starfa sem efnahagsráðgjafi VR. Félagið hafi þegar fengið kynni af hennar störfum því hún hefur setið í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna fyrir hönd VR frá því í ágúst 2019.

Guðrún á að baki um 20 ára feril sem háskólakennari við HÍ, HR, og Oslóarháskóla og sem rannsakandi á sviði fjármála og efnahagsmála hjá alþjóðlegum stofnunum. Hún hefur lokið doktorsprófi í hagfræði frá ENS í Frakklandi og meistaragráðum í bæði tölfræði og hagnýtri hagfræði frá University of Michigan. Hún er ein fárra hagfræðinga sem frá árinu 2005 varaði við skuldakreppunni miklu sem raungerðist árið 2008 og frá 2009-2010 starfaði Guðrún hjá Rannsóknarnefnd Alþingis, en eftir hana liggja margar greinar, bókarkaflar og bók um fjármálakreppuna miklu.

Eftir bankahrunið kom hún að endurreisn íslenska bankakerfisins, sem varaformaður stjórnar Arion banka í tæplega átta ár. Frá 2014 hefur Guðrún varið frítíma sínum m.a. í uppfræðslu og vitundarvakningu meðal almennings um áhrif spillingar í viðskiptalífi og stjórnmálum.