Lántakendur hætti að greiða smálánaskuldir

Fréttir - 15.08.2019
Lántakendur hætti að greiða smálánaskuldir

VR og Neytendasamtökin hvetja lántakendur til að hætta að greiða af smálánaskuldum nema þeir fái í hendur skýra sundurliðun á kröfum sínum eins og þeir eiga rétt á. Félögin eru jafnframt að skoða réttarstöðu lántakenda vegna innheimtuaðferða Almennrar innheimtu ehf., en margt bendir til þess að innheimtan sé ekki í samræmi við lög um innheimtustarfsemi.

VR og Neytendasamtökin hyggjast einnig taka til varna fyrir hönd lántakenda og standa straum af kostnaði komi til dómsmála ef lántakendur fá ekki umbeðin gögn eða verði hótað málssókn af hálfu innheimtuaðila lánafyrirtækjanna því margir lántakendur smálána hafa þegar greitt sína skuld að fullu til baka, jafnvel margfalt, og ber því ekki að greiða meira.

Innheimtu smálána verði hætt

Ekkert bendir til þess að Almenn innheimta ehf. eða smálánafyrirtæki undir hatti Kredia Group séu hætt innheimtu á ólögmætum smálánum þrátt fyrir staðhæfingar um annað. Innheimtufyrirtækinu virðist ómögulegt að sinna lagalegri skyldu sinni og veita viðskiptavinum upplýsingar um nákvæma sundurliðaða stöðu lána, þ.e. höfuðstól, vexti og annan kostnað. Ef félagið getur ekki útvegað lántakendum þessar upplýsingar er það ekki fært um að sinna innheimtustarfsemi í samræmi við lög og á ekki að komast upp með að innheimta þessar kröfur. Mörg dæmi eru um að fólk hafi greitt lán sín margfalt til baka en skuldi þó enn háar upphæðir.

Óheimil skuldfærsla af bankareikningum fólks á ábyrgð bankanna?

VR og Neytendasamtökin vilja láta skera úr um það hvort smálánafyrirtækjum sé stætt á að skuldfæra háar upphæðir af bankareikningum fólks án heimildar og hvort bankar og sparisjóðir séu ábyrgir fyrir óheimilum úttektum af bankareikningum fólks. Hafi neytendur orðið fyrir því að skuldfært hafi verið af reikningum þeirra án skýrrar heimildar eru þeir hvattir til þess að hafa samband við Neytendasamtökin.

Lögfræðingar VR og Neytendasamtakanna skoða nú sérstaklega hvernig smálánafyrirtæki hafa látið framkvæma skuldfærslur af bankareikningum fólks þrátt fyrir að skýr skuldfærsluheimild sé ekki til staðar. En bankar, kortafyrirtæki og færsluhirðar neitað allri ábyrgð á skuldfærslum á þeim grundvelli að viðskiptavinir hafi sjálfir heimilað þær. Við nánari skoðun er ljóst að þessir aðilar skýla sér á bak við óskýra og alltof víðtæka heimild í almennum skilmálum smálánafyrirtækjanna, sem viðskiptavinum er ómögulegt að átta sig á. Þessar skuldfærslur eru stundum gerðar mörgum árum eftir að lán var tekið og í mörgum tilfellum er viðkomandi búinn að greiða upp skuldina hefði hún borið löglega vexti. Þá virðist sem einnig sé skuldfært fyrir innheimtukostnaði og dæmi eru um að skuldfært sé af reikningum fólks þrátt fyrir að ekki sé innistæða fyrir hendi. VR og Neytendasamtökin telja mikilvægt að fá úr því skorið hver beri ábyrgð á öryggi innstæðna í bönkum þannig að hver sem er geti ekki látið skuldfæra hvaða upphæð sem er.

 

Nánari upplýsingar má finna á vef Neytendasamtakanna; www.ns.is

Nýjustu fréttir

Skrá mig á póstlista VR