Mótframlag launagreiðenda hækkar frá og með júlílaunum

Fréttir - 03.07.2017
Mótframlag launagreiðenda hækkar frá og með júlílaunum

Breytingar á samþykktum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna voru kynntar á aukaársfundi Lífeyrissjóðsins 21. júní sl. Athugið að breytingarnar eiga við um þá félagsmenn VR sem greiða iðgjald til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna en er sambærilegt hjá öðrum sjóðum.

Breytingarnar eru eftirfarandi:

 • Samkvæmt samkomulagi milli ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 kemur 3,5% hækkun á mótframlagi launagreiðanda til í áföngum, úr 8% í 11,5%, til ársins 2018. 
 • Fyrsta hækkun ( 0,5%) varð í júlí 2016 en þá hækkaði mótframlagið úr 8,0% í 8,5%. Önnur hækkun (1,5%) varð 1. júlí 2017 en þá hækkaði mótframlagið úr 8,5% í 10%. Þriðja hækkun (1,5%) verður svo í júlí 2018 en þá hækkar mótframlagið úr 10% í 11,5%. Athugið að iðgjald launamanns verður áfram óbreytt, 4% af launum.
  Hver sjóðfélagi fyrir sig getur valið hvort hækkunin nú (0,5% + 1,5%, alls 2% )fari í samtryggingarsjóð, eins og iðgjaldið (A-deild), eða í tilgreinda séreign (C-deild), og þá hvort hækkunin fari þangað öll eða að hluta til. Ef sjóðfélagi velur að setja hækkunina í séreign fer hún í nýju tilgreindu séreignina. Ef sjóðfélagi velur ekkert fer öll hækkunin í samtryggingu. Sjóðfélagar þurfa ekki að ákveða sig fyrir tiltekinn tíma hvort þeir vilji að mótframlagið fari í tilgreinda séreign eða í sameignarsjóðinn.
 • Deildum sjóðsins fjölgar úr tveimur í þrjár en við A- og B-deild bætist c-deild. A-deild er sameignarsjóður eða samtrygging en í hann greiðast lögbundin eða samningsbundin iðgjöld. B-deild er séreignarsjóður en í hann greiðast viðbótariðgjöld, oft nefnt viðbótarlífeyrissparnaður. Nýja deildin, C-deildin tekur við lífeyrissparnaði í séreign og er talað um hana sem tilgreinda séreign.

Hvað er samtrygging?

Viðbótarframlag getur sjóðfélagi valið að setja í samtryggingu. Þar eignast sjóðfélagi ekki tiltekna inneign á reikningi, eins og gildir um séreignarsparnað, heldur ávinnur sjóðfélagi sér tryggingu fyrir ævilöngum lífeyrisgreiðslum frá því að taka lífeyris hefst. Ævilangur lífeyrir er greiddur ævina á enda í samræmi við áunnin réttindi. Önnur laun og greiðslur skerða ekki ævilangan lífeyri.
Auk réttar til ævilangs lífeyris ávinnur sjóðfélagi sér rétt til örorkulífeyris vegna skertrar starfsgetu. Sjóðfélagi ávinnur einnig maka sínum rétt til makalífeyris við fráfall og börnum sínum rétt til barnalífeyris ef starfsgeta sjóðfélaga skerðist.
Almennur eftirlaunaaldur miðast við 67 ára aldur. Sjóðfélagi hefur val um að flýta töku lífeyris til 65 ára aldurs eða fresta honum til allt að 70 ára aldurs.

Hvað er tilgreind séreign?

Tilgreind séreign (C-deild) er einkaeign sjóðfélagans og erfist eftir reglum erfðalaga. Aðrar reglur gilda um tilgreinda séreign heldur en frjálsu séreignina (viðbótarlífeyrissparnaðinn – B-deild). Tilgreind séreign er laus til útborgunar við 67 ára aldur. Þó er hægt að flýta útgreiðslu um allt að fimm ár, en þá skal dreifa greiðslunum þar til sjóðfélagi nær 67 ára aldri.
Tilgreind séreign myndar sjálfstæðan sjóð í eigu sjóðfélagans. Hún myndar því ekki rétt til ævilangs lífeyris, heldur minnkar sjóðurinn með hverri úttekt þar til hann að lokum tæmist.
Tilgreinda séreign er hægt að fá greidda út við örorku en hún myndar ekki rétt til örorku-, maka- eða barnalífeyris.
Tilgreindri séreign er ekki heimilt að ráðstafa inn á lán eða í önnur úrræði stjórnvalda sem heimila ráðstöfun á viðbótarlífeyri.

Hvað þýðir þetta í stuttu máli?

 • Mótframlag launagreiðanda hækkar í áföngum um 3,5% til ársins 2018 en í júlí 2018 verður mótframlag launagreiðanda orðið alls 11,5%. Framlag launamanns verður áfram óbreytt 4%.
 • Sjóðfélagi velur hvort sú hækkun á mótframlagi launagreiðanda (3,5%) verði lögð inn á samtryggingu (A-deild) eða hvort hækkunin verði lögð inn á hina nýju tilgreindu séreign, einnig nefnd C-deild.
 • Með greiðslum í samtryggingu ávinnur sjóðfélagi sér rétt til ævilangs lífeyris, örorku-, maka- og barnalífeyri.
 • Með greiðslum í tilgreinda séreign myndar sjóðfélagi sjálfstæðan sjóð sem er einkaeign sjóðfélaga og erfist. Hann myndar ekki rétt til ævilangs lífeyris heldur minnkar sjóðurinn með hverri úttekt þar til hann að lokum tæmist. Tilgreind séreign myndar ekki rétt til örorku-, maka- eða barnalífeyris.
 • Ef sjóðfélagi velur ekkert verður hækkunin á mótframlagi lögð inn á samtryggingarsjóðinn.
 • Sjóðfélagar þurfa ekki að ákveða sig fyrir tiltekinn tíma hvort þeir vilji að hækkun á mótframlagi fari í tilgreinda séreign eða í samtryggingarsjóðinn.

Upplýsingar þessar eru fengnar á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna en allar nánari upplýsingar veitir Lífeyrissjóðurinn á vef sínum, í síma 580-4000 eða í tölvupósti á skrifstofa@live.is.