Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_adalfundur_2017-15_4.jpg

Almennar fréttir - 29.03.2017

Nýr formaður tekur við á aðalfundi VR

Nýr formaður tók við á fjölmennum aðalfundi VR sem haldinn var að kvöldi þriðjudagsins 28. mars 2017. Þrír nýir einstaklingar tóku sæti í stjórn félagsins. Nýkjörinn formaður, Ragnar Þór Ingólfsson, sagði í ávarpi sínu nýafstaðnar kosningar hafa snúist um ytri áherslur félagsins og hugmyndafræði. Á fundinum var samþykkt tillaga um sameiningu VR við Verslunarmannafélag Suðurlands sem og tillaga um innlögn í VR varasjóð. Inneign félagsmanna í sjóðnum verður uppfærð fimmtudaginn 30. mars.

Jákvæð afkoma ársins 2016

Fullt var útúr dyrum á aðalfundinum en langt er síðan svo margir sóttu aðalfund VR. Á fundinum var farið yfir ársskýrslu félagsins fyrir starfsárið 2016 til 2017 og reikninga ársins 2016. Afkoma VR á árinu 2016 var jákvæð, hreinar tekjur til ráðstöfunar námu 775 milljónum króna sem er minna en á árinu 2015 þegar þær voru 841 milljón króna. Lækkun á milli ára nemur 7,8%. Þetta kom fram í máli Stefáns Sveinbjörnssonar, framkvæmdastjóra VR, sem fór yfir reikningana sem því næst voru bornir undir fundinn og samþykktir samhljóða.

Rekstrartekjur VR jukust um 14,8% prósent á milli áranna 2015 til 2016. Þetta má helst rekja til fjölgunar félagsmanna og launahækkana á tímabilinu. Félagsmönnum fjölgaði um 5,2% á milli ára og laun hækkuðu að meðaltali um 9,5%, þar af var kjarasamningsbundin hækkun 6,2%. Rekstrargjöld jukust um 5,6% á milli ára sem má m.a. rekja til hækkunar á greiðslu sjúkradagpeninga.

Raunávöxtun eignasafns VR var 1,36% á árinu samanborið við 5,64% á árinu 2015. Styrking krónunnar og lítil ávöxtun á innlendum hlutabréfum á árinu 2016 skýra þessa breytingu að stærstum hluta. Fjárfestingastefna VR er varfærin og hugsuð til lengri tíma, meðalraunávöxtun síðustu fimm ára er 3,21%. Eiginfjárstaða félagsins er sterk.

Rúmlega 40% hærra framlag í VR varasjóð

Á fundinum var samþykkt tillaga um framlag í VR varasjóð að upphæð 785 milljónir króna vegna ársins 2016 og rúmlega sjö milljónir króna vegna ársins 2015. Þetta er 42,7% hærra framlag en á síðasta ári. VR varasjóður er séreign hvers félagsmanns sem hann getur ráðstafað samkvæmt reglum sjóðsins til margvíslegra hluta, s.s. líkamsræktar, endurhæfingar, lækniskostnaðar o.fl. Lagt verður inn á VR varasjóð fimmtudaginn 30. mars. Á Mínum síðum á vef VR er hægt að sjá stöðuna á sjóðnum og sækja um á rafrænan hátt (innskráning á Mínar síður með rafrænum skilríkjum eða Íslykli).

VR á Suðurlandi

Fundarmenn samþykktu samhljóða tillögu um sameiningu VR við Verslunarmannafélag Suðurlands (VMS) en samningur þar að lútandi var undirritaður í lok árs 2016, með fyrirvara um félagslega afgreiðslu beggja félaga. Félagsmenn í VMS samþykktu sameininguna í atkvæðagreiðslu í upphafi árs. Sameiningin hefur þegar tekið gildi. Stofnuð verður deild VR á Suðurlandi og mun félagið reka þjónustuskrifstofu á Selfossi.

Lagabreytingar

Nokkrar breytingar á lögum félagsins voru samþykktar á fundinum og er hér að neðan fjallað um þær helstu. Breyting var gerð á 1 gr. um félagssvæði í kjölfar samþykktar fundarins á sameiningu við Verslunarmannafélag Suðurlands. Þá var skerpt á aðild öryrkja að félaginu skv. 3 gr. þannig að greiðsla félagsgjalda af örorkulífeyri skal hefjast innan 12 mánaða frá fyrstu greiðslu lífeyris. Einnig var samþykkt breyting á 6. gr. um úrsögn úr félaginu og getur enginn sagt sig úr félaginu eftir að kröfugerð í vinnudeilu hefur verið vísað til ríkissáttasemjara og þar til samningar hafa náðst. Þá segir nú í 11. gr. að reglan um missi kjörgengis stjórnarmanna eigi einnig við um aðra kjörna fulltrúa í stjórnum og ráðum félagsins. Gerð var breyting á fjölda meðmælenda við lista sem borinn er fram gegn lista félagsins til trúnaðarráðs eða á þing ASÍ eða LÍV í allsherjarkosningum og skal hann vera 1% félagsmanna. Samskonar krafa er gerð til þess fjölda félagsmanna sem þarf til að stjórn sé skylt að boða til félagsfunda.

Lög VR á vef félagsins verða uppfærð svo fljótt sem verða má til samræmis við þessar breytingar.

Nýr formaður og stjórn taka við

Á fundinum var lýst kjöri formanns og stjórnar fyrir kjörtímabilið 2017 - 2019. Ólafía B. Rafnsdóttir lét af störfum sem formaður eftir fjögurra ára setu og Ragnar Þór Ingólfsson tók við formennskunni á grundvelli niðurstöðu í kjöri til formanns sem fór fram í byrjun mars. Þá var einnig kosið til sjö sæta í stjórn en sjö sátu áfram kosnir árið 2016 til tveggja ára. Eftirtaldir fengu kosningu í mars 2017; Ólafur Reimar Gunnarsson, Harpa Sævarsdóttir, Birgir Már Guðmundsson, Guðrún Björg Gunnarsdóttir, Unnur María Pálmadóttir, Helga Ingólfsdóttir og Elizabeth Courtney. Guðrún, Unnur og Elizabeth koma nýjar inn í stjórn. Guðrún Björk Hallbjörnsdóttir, Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir og Rannveig Sigurðardóttir voru kosnar varamenn.

Sjá hér heildarniðurstöður í kosningum til formanns og stjórnar kjörtímabilið 2017 - 2019.

Ólafía B. Rafnsdóttir flutti skýrslu stjórnar á fundinum og fór yfir starfsemina á starfsári stjórnar sem lauk á fundinum (sjá ársskýrslu). Í lok ávarps síns þakkaði hún stjórn, trúnaðarráði og starfsfólki ánægjulegt samstarf á síðustu fjórum árum og óskaði félaginu velfarnaðar.

Kosið um áherslur og hugmyndafræði

Nýr formaður, Ragnar Þór Ingólfsson, ávarpaði fundinn og sagði nýafstaðnar kosningar til formanns hafa snúist um ytri áherslur félagsins og hugmyndafræði sem hann vildi hafa að leiðarljósi. Hann óskaði nýkjörinni stjórn og trúnaðarráði til hamingju með kjörið og sagði það áskorun fyrir stjórnina að fara yfir niðurstöður kosninganna og leggja línur að framhaldinu. Hann lagði áherslu á aukin skoðanaskipti innan félagsins og aukið samstarf og hvatti trúnaðarráð og félagsmenn til að leggja fram hugmyndir og tillögur sem styrkt geti starfsemi félagsins.

Ragnar Þór fjallaði um lífeyrissjóðakerfið í kjölfar spurningar frá fundarmanni um stöðuna á Akranesi og sagðist hafa barist fyrir breytingum á því kerfi síðasta áratug, síðustu átta af þeim sem stjórnarmaður í VR. Hann benti á nýlega grein um lífeyrissjóðakerfið sem skrifuð var vegna áforma HB Granda um að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og segja upp nærri hundrað starfsmönnum. Hann kvaðst vonast til að með nýjum fulltrúum VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sjáist breytingar á ytri áherslum sjóðsins.

Ragnar Þór þakkaði félagsmönnum fyrir það traust sem honum hafi verið sýnt í kosningunum og kvaðst vonast til að allir gætu tekið höndum saman um niðurstöðuna og unnið hana áfram í sátt og samlyndi. „Við erum rétt að byrja,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, nýkjörinn formaður VR.