Stjórnarmenn LV sitji ekki í stjórnum fyrirtækja

1 - 13.01.2016
Stjórnarmenn LV sitji ekki í stjórnum fyrirtækja

Stjórn VR samþykkti á fundi sínum í kvöld, 13. janúar 2016, ályktun vegna tilnefninga í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Ályktunin er birt í heild hér að neðan.

Ályktun frá stjórn VR
- Stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sitji ekki í stjórnum fyrirtækja

Tilnefningar stjórnarmanna í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna kjörtímabilið 2016 – 2019 þurfa að liggja fyrir þann 1. febrúar næstkomandi. VR tilnefnir fjóra aðalmenn og fjóra til vara.

Á aðalfundi VR árið 2014 voru samþykktar reglur um tilnefningu fulltrúa VR í stjórn sjóðsins. Markmið reglnanna er að auka lýðræði við valið. Samkvæmt reglunum tilnefnir stjórn VR tvo aðalmenn en trúnaðarráð félagsins tilnefnir tvo aðalmenn og fjóra varamenn. Auglýst var eftir umsóknum áhugasamra seint á síðasta ári og stendur nú yfir vinna við að greina þær umsóknir.

Atvinnurekendur tilnefna jafnmarga stjórnarmenn samkvæmt eftirfarandi: Félag atvinnurekenda tilnefnir einn, Kaupmannasamtök Íslands tilnefna einn, Samtök iðnaðarins tilnefna einn að fengnu áliti Samtaka atvinnulífsins og Samtök atvinnulífsins tilnefna einn að fengnu áliti Viðskiptaráðs Íslands. Jafnmargir varamenn eru svo tilnefndir af atvinnurekendum á sama hátt.

VR mun tilkynna um fulltrúa sína eigi síðar en 1. febrúar, eins og reglur gera ráð fyrir.

Trúverðugleiki og traust í húfi

Okkur ber að standa vörð um Lífeyrissjóð verzlunarmanna, trúverðugleika hans og traust. Til að það sé hægt verður að tryggja að þeir sem skipa stjórn sjóðsins gæti fyrst og fremst hagsmuna sjóðsins sjálfs og sjóðfélaga. Það er að mati stjórnar VR óásættanlegt að stjórnarmenn í Lífeyrissjóði verzlunarmanna sitji í stjórnum eða eigi hlut í fyrirtækjum sem sjóðurinn fjárfestir í.

Stjórn VR lýsir því yfir að þeir fulltrúar sem félagið tilnefnir í stjórn sjóðsins eigi ekki sæti í stjórnum fyrirtækja eða félaga sem sjóðurinn fjárfestir í. Stjórn VR gerir þá kröfu til samtaka atvinnurekenda sem tilnefna fulltrúa í stjórn lífeyrissjóðsins að þau hagi tilnefningum sínum með sama hætti. Trúverðugleiki Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er í húfi.

Stjórn VR
13. janúar 2016