Streita er heilsuvá

Frétt - 26.03.2018
Streita er heilsuvá

Dr. Ólafur Þór Ævarsson er frumkvöðull í forvörnum og geðheilsueflingu. Hann hefur lengi veitt ráðgjöf um heilbrigðismál og beitt sér fyrir fræðslu og forvörnum og verið í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki og stofnanir um sálfélagslega vinnuvernd, streitu og kulnun í starfi. Hann er sérfræðingur í geðlækningum og hefur starfað að lækningum og kennslu við háskólageðdeildir erlendis og hérlendis. Hann hefur stundað vísindarannsóknir og lauk doktorsprófi frá læknadeild Gautaborgarháskóla 1998. Ólafur Þór er stofnandi Forvarna ehf., sem er eitt fyrsta ráðgjafafyrirtækið til að hljóta viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til að veita þjónustu á sviði sálfélagslegrar vinnuverndar. Forvarnir reka Lækninga- og fræðslusetur ásamt Streitumóttökunni, Streituskólanum og www.stress.is. Fjóla Helgadóttir ræddi við Ólaf um vinnutengda streitu og kulnun í starfi.

Sérfræðingar í teymi Forvarna starfa að hluta til í heilbrigðiskerfinu og einnig á sviði sálfélagslegrar vinnuverndar. Þeir eru því í tengslum við mannauðssérfræðinga og stjórnendur fyrirtækja sem fylgjast vel með sínu fólki og bregðast fljótt við ef eitthvað er að. Þetta gefur frábært tækifæri til forvarnastarfs og geðheilsueflingar því vandamálin koma mun fyrr til úrvinnslu og koma má í veg fyrir alvarlega vanlíðan, veikindi og hindrun á starfs- og námsgetu með fræðslu, snemmtækri íhlutun og ráðgjöf. Yfirleitt er þá mögulegt að hefja meðferð og skipuleggja markvissa endurhæfingu fyrr, ef þörf krefur.

Hvað er vinnutengd streita?
Vinnutengd streita er það kallað þegar álagsþættirnir eru bundnir við starfið eða eru í starfsumhverfinu. Álagsþættir tengdir sjálfu starfinu eru oftast vel þekktir og nokkuð augljósir eins og t.d. tímapressa, mikil ábyrgð, mörg eða flókin verkefni og krafa um þekkingu og leikni. En streituvaldarnir geta líka verið í starfsumhverfinu eins og t.d. í samskiptum og þá er talað um samskiptastreitu. Slíkir álagsþættir geta verið lúmskir og samt truflað mjög mikið. Tæknistreita er það kallað þegar tækniframfarir eru miklar á vinnustað og sumir eiga erfiðara en aðrir með að tileinka sér það. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að álagsþættir sem valda óeðlilegri streitu eru yfirleitt ekki eingöngu á vinnustaðnum heldur líka í einkalífinu. Þegar áhrif þessara álagsþátta blandast saman og verða of mikil eða álagsþættir verða of margir er hætta á kulnun eða sjúklegri streitu.

Hver eru einkennin?
Fyrstu einkenni streitu eru oft spenna, skapbreytingar og svefntruflanir. Ef ástandið versnar og ekki næst hvíld þá koma fram sterkari einkenni eins og depurð, kvíði, vöðvabólgur og verkir. Ef ástandið heldur áfram að versna og verður langvinnt þá getur streitan farið á sjúklegt stig og þá bætast við fyrri einkenni ýmis geðræn einkenni eins og truflun á einbeitingu, gleymska og margskonar óþægileg líkamleg einkenni eins og langvinnur höfuðverkur, þyngsli fyrir brjósti, verkir í kvið og meltingatruflanir eða suð fyrir eyrum. Oft fylgja líka tíðari sýkingar og pestir og aukning annara veikinda s.s. liðverkja og stirðleika, astma eða mígreni.

Hvað getum við gert ef við finnum fyrir vinnutengdri streitu?
Fyrst er að greina vandlega álagsþættina í starfinu og þá sem geta verið faldir í samskiptum á vinnustaðnum. Einnig er mikilvægt að skoða álagsþættina heima en þeir eru ekki alltaf neikvæðir. Það fylgir því t.d. álag að ala upp ungling eða ef maki er mikið fjarverandi vegna vinnu eða ef maður er einstætt foreldri og ekki með mikið á milli handanna. Við greiningu álagsþáttanna er mikilvægt að skoða hverju maður getur breytt og bætt, einn eða með aðstoð annarra. Það er líka mikilvægt að gera sér grein fyrir því hvaða þáttum maður getur ekki breytt.

Hvað geta vinnufélagarnir gert ef þá grunar að einn úr hópnum sé að glíma við vinnutengda streitu?
Þeir geta sýnt skilning og veitt stuðning og knúið fram breytingar ef þörf er á. Gamla viðhorfið var að benda á að einstaklingurinn réði ekki við starfið og álagið sem því fylgdi. Nýja leiðin, sem fær mikinn stuðning úr vísindarannsóknum á eðli álags á vinnustöðum, hvetur til þess að gera athugun á starfsumhverfi viðkomandi starfsmanns og finna út hvaða breytingar mætti gera til úrbóta. Margar nýjungar hafa komið fram og ný viðhorf varðandi streituvarnandi stjórnunarstíl og hagstæðara skipulag vinnuumhverfis.

Hvað er kulnun í starfi og hvað einkennir kulnun í starfi?
Hugtakið „kulnun í starfi“ er sálfræðileg lýsing á óeðlilegri streitu og lýsir sér í einkennum sem talin voru upp hér að ofan. Að auki er viðkomandi oft kulnaður í þeim skilningi að hann hefur misst áhugann á starfinu, inntaki þess eða samskiptum á vinnustaðnum. Viðhorf eru ekki lengur jákvæð heldur neikvæð og einkennast af áhugaleysi og skorti á framtíðarsýn.

Hvað er til ráða?
Margt er til ráða. Ef ekki er hægt að hafa áhrif á álagsþætti í starfinu eða ef breytingar á starfsumhverfinu hafa lítil áhrif er mögulegt að færa starfsmann í annað starf. Oft er gott að draga úr álagi tímabundið og mjög mikilvægt að stuðla að góðri hvíld og hreyfingu. Stundum þarf að vinna með samskipti á vinnustaðnum, auka endurmenntun og þjálfun eða skipulag stjórnunar. Stundum þarf aðgerðir eins og veikindaleyfi eða starfsendurhæfingu.

Geturðu nefnt dæmi um kulnun í starfi?
Margir halda að hætta á kulnun í starfi sé mest hjá þeim sem hafa unnið lengi í sama starfi án tilbreytingar. Svo er ekki. Kulnun getur myndast hvar sem vinnuaðstæður eru óheppilegar eða starfsmaður ræður illa við álagsþætti eða stuðningur er lítill og samskiptum ábótavant. Það hefur líka komið í ljós að meiri hætta er á kulnun ef starfsmanni finnst hann hafa lítil áhrif á vinnuumhverfi sitt eða ef honum finnst hann fá of lág laun eða litla hvatningu og hrós.

Hversu alvarleg eru verstu tilfellin og hverjar eru batahorfur?
Flestir sem glíma við streitu geta náð góðum tökum á henni ef þeir eru meðvitaðir um álagsþættina og einkennin og muna að hvílast og hreyfa sig. Forvarnaraðgerðir eiga því best við. En alvarleg kulnun getur þróast í sjúklega streitu (Exhaustion disorders) sem er sjúklegt ástand með bæði líkamlegum og andlegum veikindum. Slík veikindi geta leitt til langvarandi einkenna og skerðingar á vinnugetu sem í sumum tilfellum getur orðið varanleg.

Hvert er hægt að leita?
Fyrsta forvarnaaðgerðin er að halda uppi umræðu og fræðslu á vinnustaðnum sem kemur í veg fyrir að starfsumhverfið auki hættu á kulnun. Ef merki eru um streitu ætti fyrst að ræða við yfirmann eða mannauðssérfræðing ef slíkur er til staðar á vinnustaðnum. Alltaf er hægt að fá mat á líðan hjá heimilislæknum, sálfræðingum eða geðlæknum. Til eru nokkur ráðgjafafyrirtæki sem taka að sér ráðgjöf og meðferð í slíkum málum. Forvarnir og Streituskólinn (www.stress.is) eru dæmi um slík fyrirtæki.

Hvað er hægt að gera í forvarnaskyni, það er að segja hvað getum við gert sem einstaklingar, sem samfélag og sem vinnustaðir?
Við getum gert mjög margt. Hver og einn getur lesið sér til, aflað sér þekkingar á streitu og álagstengdri vanlíðan og í framhaldi af því forvörnum og heilsueflingu. Við getum vandað samskipti og verið góðar fyrirmyndir fyrir þá sem yngri eru. Það er mikilvægt að ryðja burt þeim fordómum í samfélaginu að það að þola ekki streituna sé veikleikamerki. Það þarf að efla bæði fræðslu í skólum og breyta viðhorfum. Við getum öll lent í þessu. Raunar er það svo að þeir sem eru í mestri hættu eru þeir sem eru duglegir, hafa mikinn metnað og sterka ábyrgðarkennd og mikla löngun til að gera vel.

Hver er staðan á íslenskum vinnumarkaði samanborið við þau lönd sem við berum okkur saman við?
Við þessari spurningu eru ekki til skýr svör. Víðtækar og nákvæmar rannsóknir hafa verið gerðar á streitu á hinum Norðurlöndunum og í flestum löndum Norður-Evrópu. Þessar rannsóknir benda til að streitutengdur heilsubrestur sé stórt vandamál, ekki aðeins hvað snertir vanlíðan og heilsubrest, heldur einnig við rekstur fyrirtækja, fyrir almannatryggingakerfi þessara landa og fyrir heilbrigðiskerfið. Nægilega margar eða ítarlegar rannsóknir hafa ekki verið gerðar enn hérlendis til þess að heildarmyndin sé skýr þó nokkrar ágætar rannsóknir hafi verið gerðar á ákveðnum hópum eða starfsstéttum.

Eru einstaklingar á vinnumarkaði meðvitaðir um streitu og áhrif hennar?
Áhugi á streitu hefur farið mjög vaxandi á undanförnum áratug bæði hjá einstaklingum og stjórnendum á vinnumarkaði, enda fara hagsmunir þeirra saman.

Er eitthvað í samfélaginu sem ýtir undir streitu?
Já, það er margt sem vitað er til að ýti undir álag og streitutengda vanlíðan. Helst þættir sem hafa með öryggiskennd að gera. Að við höfum í okkur og á, þ.e. höfum laun sem við getum lifað á. Að aðgengi að húsnæði sé auðvelt. Að við getum búið við öryggi og góða menntun.

Hvernig upplifir þú vinnustaðamenningu á Íslandi samanborið við aðra búsetustaði þína?
Ég hef unnið á þessu sviði á Íslandi í meira en 15 ár og fylgst með þróun mála hér. Ég hef einnig unnið að rannsóknum og við sérhæfða þjónustu varðandi forvarnir og streituvarnir og heilsueflingu í nokkur ár í Svíþjóð þar sem ég bjó og starfaði um tíma. Ég hef líka kynnt mér aðstæður og rannsóknir á hinum Norðurlöndunum, Evrópu og Norður-Ameríku og fengið styrk frá Viðskiptaráði Íslands til að sinna rannsóknum á streitu hérlendis.

Ég tel að við stöndum á tímamótum á Íslandi. Við erum að átta okkur betur á þeirri heilsuvá sem felst í streitunni og um leið erum við að gera okkur betur grein fyrir þeim miklu möguleikum sem felast í forvörnum á þessu sviði. Vinnuverndarlöggjöfin er að mínu mati vönduð og var gerð af mikilli framsýni á sínum tíma sem skipti miklu máli m.a. til að efla ábyrgðarkennd stjórnenda fyrirtækja. Sérfræðingar Vinnueftirlits ríkisins hafa einnig verið mjög ötulir að vekja athygli á þessum málaflokki og gera kannanir og útbúa gagnlegt fræðsluefni. Komið hefur fram ný þekking mannauðsfræðanna og starfstétt mannauðsfræðinga sem hefur leitt til markvissari vinnu með þessi mál innan fyrirtækja þó vissulega hafi margir stjórnendur sýnt gott fordæmi áður. Vinnuharka var mjög mikil áður en þetta er nú að breytast og allir gera sér grein fyrir mikilvægi þess að draga úr starfsmannaveltu, veikindafjarveru og veikindanærveru.

Hvernig geta stéttarfélögin beitt sér í umræðunni?
Stéttarfélögin eru í lykilstöðu til að beita sér í forvörnum. Það mætti segja að þau ásamt stjórnendum fyrirtækja geti haft meiri áhrif á forvarnir og geðheilsueflingu en aðilar og stofnanir innan heilbrigðiskerfisins. Stéttarfélögin verja grunnhagsmuni félagsmanna sinna sem hafa áhrif á mikilvægustu forvarnaþættina eins og lýst er hér að ofan, þ.e. viðunandi launakjör, öruggar aðstæður á vinnustað og svo menntun og húsnæði. Þau eru í lykilstöðu til að beita sér fyrir fræðslu og hvatningu til að vinnuveitendur standi sig. Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna hafa afl til að stuðla að hreyfingu og hollum lífsstíl sem er mikilvæg forvörn og geta gripið inn í ef þörf er á veikindaleyfi. Stéttarfélögin geta líka staðið vörð um hópa sem eru í meiri hættu á að veikjast en aðrir, t.d. vaktavinnufólk eða þá sem vinna óvenju langa vinnuviku. Mikil umræða fer nú fram um styttingu vinnuvikunnar og áhrif slíkra breytinga á samskipti og heilsu. Þarna eru stéttarfélögin í mikilvægri aðstöðu til að afla og veita upplýsingar, þrýsta á og tala fyrir málum og hafa áhrif á viðhorf ráðamanna, félagsmanna sinna og almennings.

Viðtal birtist í 1. tölublaði VR 2018