Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
Gunnurlíf

Almennar fréttir - 13.12.2019

Stytting á vinnutíma í verslunum Samkaupa

Stytting vinnuvikunnar er flestum félagsmönnum VR ofarlega í huga þessi misserin enda tekur styttingin gildi 1. janúar næstkomandi. Gunnur Líf Gunnarsdóttir er framkvæmdastjóri mannauðssviðs Samkaupa en Samkaup rekur verslanir Nettó, Kjörbúðina, Krambúðina, Iceland, Seljakjör, Háskólaverslanir og Samkaup strax. Þar á bæ verður tekinn upp svokallaður mínútubanki þar sem starfsfólk safnar sér upp mínútum fyrir hverja unna stund. Gunnur Líf segir að fyrirtækið hafi þurft að huga að mörgum þáttum í aðdraganda vinnutímastyttingarinnar en starfsfólk Samkaupa er um 1300 talsins í 60 verslunum um allt land.

Hvenær tekur vinnutímastyttingin gildi?

„Frá og með 1.janúar 2020 tekur vinnutímastytting hjá Samkaupum formlega gildi. Við teljum þó að góður sveigjanleiki hafi ríkt í langan tíma hjá fyrirtækinu en fögnum því að nú sé búið að gefa okkur tækifæri til að formgera hann út frá nýjum kjarasamningum.“

Hvernig verður vinnutímastyttingunni háttað?

„Samkaup hefur ákveðið að vera með svokallaðan mínútubanka, þar sem starfsfólk safnar mínútum í vinnutímastyttingu fyrir hverja unna stund. Þau hafa svo samráð við sinn verslunarstjóra um hvernig hentar þeim best að ráðstafa mínútunum. Mínúturnar safnast upp fyrir hvern unninn klukkutíma og eru þar með alltaf í hlutfalli við þá vinnu sem starfsmaðurinn skilar. Inneign mínútna mun svo verða sýnileg á launaseðli hjá starfsmanninum. Þá horfum við í misjafnar þarfir starfsfólks og hefur fólkið okkar tækifæri til að velja hvaða leið þau kjósa hverju sinni með fyrirvara um að samstarf sé haft við verslunarstjóra með tveggja vikna fyrirvara. Við reynum eftir fremsta megni að koma til móts við starfsmanninn í þessu eins og öðru í öllu okkar starfi. Þau hafa tækifæri á að velja að hafa fasta reglu á styttingunni t.d. fara alltaf einn dag í viku fyrr eða mæta seinna. Þá hafa þau einnig val um að fara fyrr eða mæta seinna einn dag í mánuði og svo eru enn aðrir sem hafa ákveðið að safna upp í heilan dag og geta tekið hann t.d. á starfsdegi skóla eða þegar þess þarf. Sú leið hentar til dæmis vel fólkinu okkar á landsbyggðinni sem þarf mögulega að ferðast til Reykjavíkur og væri þá gott að geta nýtt heilan dag. Einnig getur starfsmaður fengið að safna upp mínútum og tekið út þegar hann þarf á sveigjanleikanum að halda til dæmis til að skreppa úr vinnu um miðjan dag vegna persónulegra erinda.

Það er okkur stjórnendum afar mikilvægt að fólk nýti sér styttinguna til að raunverulega stytta vinnutímann en ekki til að safna auka orlofsdögum eða safna upp mínútum til að taka út við starfslok. Við hvetjum því fólkið okkar til að nýta sínar mínútur áður en þær verða að mörgum dögum.“

Hvernig komust þið að þessari útfærslu?

„Mannauðssvið og mönnunardeild Samkaupa héldu góðan samráðsfund með trúnaðarmönnum og hópi af lykilfólki á ólíkum aldri sem vinnur í verslunum okkar alls staðar á landinu. Með þeim fulltrúum fundum við út að ein leið myndi ekki henta öllum og þannig varð þessi hugmynd með mínútubankann til. Samráði var svo haldið áfram rafrænt þar til útfærslan var fullmótuð. Þá fengum við einnig stuðning á þessari útfærslu hjá MyTimePlan sem er það tímakerfi sem við nýtum í dag. Þetta væri ekki möguleiki ef þeir gætu ekki komið á móts við okkur í að halda utan um mínútubankann í kerfinu.

Til að fylgja eftir vinnutímastyttingunni mun Samkaup framkvæma kannanir hjá starfsfólki tvisvar á tímabilinu frá janúar til desember 2020. Þar verður mælt hvernig til tekst með fyrirkomulagið og hvernig það nýtist starfsfólki. Einnig verður skoðað hvort vinnutímastyttingin styðji við það markmið sem sett er fram um að stytta vinnuskyldu starfsmanna. Við munum hafa augun opin og endurskoða þetta ef hægt er að nálgast styttinguna á betri hátt.“