Stytting vinnuvikunnar

Frétt - 09.06.2019
Stytting vinnuvikunnar

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, skrifar:

Eftir langa og stranga baráttu, sem endaði með kjarasamningi á almennum vinnumarkaði, er sólin að gægjast fram og hefur verið tíðari gestur en við eigum almennt að venjast. Sólin sendir okkur birtu og hlýju og eflaust hugsa sér margir gott til glóðarinnar þegar hlýna fer í veðri og birta til í framtíðarhorfum. Væri nú ekki gott að hætta aðeins fyrr í dag eða taka frí eftir hádegi á morgun?

Í vinnu við kröfugerð fyrir síðustu kjarasamninga var farið í umfangsmikla könnun meðal félagsmanna VR og var ítarlegur spurningalisti um væntingar þeirra til komandi kjarasamningaviðræðna sendur til félagsmanna. Um 3.600 félagsmenn VR svöruðu spurningum um hvaða kröfur samninganefnd félagsins ætti að setja á oddinn og hvað ætti að vera í algjörum forgangi. Það kom ekki á óvart að félagsmenn okkar vildu styttri vinnudag eða styttingu á vinnuviku og varð það að okkar helsta baráttumáli. Þó krafan hafi verið um umtalsvert meiri styttingu en raunin varð þá liggur fyrir að vegferðin er hafin svo ekki verður aftur snúið. Mikil umræða hefur skapast um styttingu vinnuvikunnar í margvíslegu samhengi. Nálgun okkar var sú að stytting vinnuvikunnar hefði ekki í för með sér kostnaðarauka fyrir fyrirtækin. Við fórum í mikla rannsóknarvinnu og tókum saman upplýsingar um gögn og rannsóknir sem gerðar hafa verið bæði hér heima og erlendis til að styðja við þessa nálgun. Við skoðuðum til að mynda styttingu vinnuviku hjá Toyota-verksmiðjunum, á skurðstofu í Svíþjóð og svo mætti lengi telja. Allar niðurstöður voru á einn veg. Færri veikindadagar starfsfólks og meiri starfsánægja. Og það sem meira er að afköst og framleiðni jukust frekar en hitt.

Þetta er sú reynsla sem nágrannaþjóðir okkar hafa af styttingu vinnuvikunnar. Einnig hefur tilraunaverkefni sem Reykjavíkurborg fór í gengið vonum framar og er niðurstaðan allsstaðar sú sama. Þess vegna kom það okkur á óvart hversu lítinn skilning Samtök atvinnulífsins höfðu á þessari vegferð okkar til að byrja með. Sérstaklega í ljósi þess að brottfall af vinnumarkaði sökum streituvaldandi og álagstengdra kvilla er og hefur verið í hæstu hæðum. Nýgengi örorku af þeim sökum hefur á tímabili verið meiri en nýliðun á vinnumarkaði og því til lengri tíma ósjálfbær þróun. Aukin starfsmannavelta fyrirtækja og tíð veikindi eru gríðarlega kostnaðarsöm og því mikilvægt að okkar viðsemjendur sýni þessum málaflokki meiri skilning.

Svo eru fleiri sjónarmið sem taka þarf með í reikninginn. Hröð tækniþróun hefur orðið til þess að vinnumarkaðurinn er að breytast mjög hratt. Störf tapast og önnur verða til. Líkur eru á að fjölgun nýrra starfa haldi ekki í við fækkun þeirra vegna tæknibreytinga. Ein leiðin til að bregðast við þeirri þróun er einmitt sú að stytta vinnuvikuna enn frekar.

Út frá lýðheilsusjónarmiðum munu lífsgæði almennt aukast eftir því sem tími utan vinnu lengist og finnum við vel í okkar starfi, og samtölum við félagsmenn okkar, að meginkrafan í okkar samfélagi er að auka frítíma og samveru með börnum okkar. Þess vegna er mikilvægt að þessi umræða sé tekin á víðari grundvelli en á vinnustaðnum. Við þurfum allt samfélagið með.

VR var eitt þeirra stéttarfélaga sem fékk hreina styttingu án þess að selja frá sér eða fórna mikilvægum hvíldartímum á móti. Hins vegar er félagsmönnum okkar frjálst að semja við sinn vinnuveitanda um meiri styttingu með svipuðum hætti og önnur stéttarfélög sömdu um. Styttingin sem við fengum hljómar ekki mikil eða 9 mínútur á dag. Hvað á ég að gera við 9 mínútur á dag hef ég heyrt fólk spyrja, enda varla hægt að linsjóða egg á þeim tíma? En 9 mínútur á dag eru 45 mínútur á viku, rúmar 35 klukkustundir á ári eða tæp vinnuvika í hreina styttingu. Þess vegna er mikilvægt að við setjum hlutina í stærra samhengi þegar við ræðum styttinguna.

Hver verður þín stytting?

Styttingin tekur gildi 1. janúar 2020. Það var ákveðið svo við gætum undirbúið þetta vel og kynnt fyrir okkar félagsmönnum þannig að raunverulegur ávinningur hverfi ekki í annarri umræðu um kjarasamningana. Þannig náum við settu markmiði, að raunverulega stytta vinnudaginn í stað þess að styttingin endi bara í formi fleiri yfirvinnutíma. Fyrirtækin verða að klára útfærslu styttingarinnar fyrir 1. desember næstkomandi og munum við fara í kynningarherferð í haust til að upplýsa um þá fjölda möguleika sem fyrir hendi eru og einnig hvaða leiðir er hægt að fara. T.d. hvernig stytta má vinnuviku hjá fólki í hlutastarfi eða þeim sem eru á
pakkalaunum, svo eitthvað sé nefnt.

Viljum við hætta fyrr á hverjum degi eða mæta seinna? Viljum við safna upp tíma og hætta fyrr eða mæta seinna einn dag í viku eða aðra hvor viku eða safna upp fríi? Eða með hverjum þeim hætti sem hentar misjöfnum störfum og vinnustöðum.

Ef samkomulag næst ekki á vinnustaðnum þá mun vinnudagurinn sjálfkrafa styttast um 9 mínútur á dag hvort sem atvinnurekanda líkar það betur eða verr. Frá 1. janúar 2020 styttist vinnuvikan hjá öllum verslunarmönnum um 45 mínútur. Vinnuvikan hjá afgreiðslufólki verður 38 klst. og 45 mínútur og virkur vinnutími 35 klst. og 50 mínútur. Vinnuvikan hjá skrifstofufólki verður 36 klst. og 45 mínútur og virkur vinnutími 35,5 klst. Á ári er styttingin um 35,25 klst. eða tæpir 5 dagar
(4 dagar og 5,85 klst.).