Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
rvk-3.jpg

Almennar fréttir - 13.04.2018

Toppi hagsveiflunnar náð

Ýmislegt bendir til þess að þensluskeiði íslensks efnahagslífs undanfarin ár sé nú lokið. Hlutfall starfandi hefur lækkað stöðugt frá því í apríl á síðasta ári og atvinnuleysi hefur aukist lítillega. Hægt hefur á hagvexti sem var 1,5% á 4. ársfjórðungi 2017 sem er umtalsvert minna en ársfjórðungana á undan. Og þá má einnig bæta við að dregið hefur úr hækkunum húsnæðisverðs, sem þó eru ennþá umtalsverðar. Um þetta má lesa í nýjasta Efnahagsyfirliti VR sem nú er komið út.

Íslenska hagkerfið er þó ekki eins brothætt nú og það var skömmu fyrir hrunið 2008. Ástæðan er sú að skuldir eru mun lægri nú því árin fyrir hrun einkenndust af mikilli aukningu í skuldsetningu, bæði fyrirtækja og heimila. Næsta niðursveifla verður því eflaust innflutt en ekki heimatilbúin, eins og fyrir tæpum áratug. Það verður því að teljast ólíklegt að árið 2019 verði endurtekning á árinu 2009.