Verndum verslunarfólkið okkar!

Fréttir - 07.10.2020
Verndum verslunarfólkið okkar!

Veiran illskæða geysar nú sem aldrei fyrr og hafa sóttvarnalæknir og yfirvöld boðað hertari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu. Tveggja metra reglan hefur tekið gildi á ný og viðskiptavinum verslana er skylt að bera grímur ef ekki er hægt að tryggja að minnsta kosti tveggja metra fjarlægðarmörk. Þó aðgerðirnar eigi aðeins við um höfuðborgarsvæðið eins og staðan er í dag þá væri það sterkur leikur hjá landsmönnum öllum að herða á eigin sóttvörnum.

Ég vil því biðla til allra viðskiptavina verslana og annarra þjónustuaðila að gæta ýtrustu varkárni og fylgja í hvívetna þeim reglum sem hafa verið settar, bæði fyrir þeirra eigin hag og þeirra sem standa vaktina fyrir okkur hin í verslunum og þjónustu, enda verður illa komið fyrir okkar samfélagi ef við getum ekki verslað nauðsynjar. Þá er einnig mikilvægt að atvinnurekendur tryggi öryggi í starfsumhverfi verslunarfólks og fólks í þjónustu. Nú sem aldrei fyrr er brýnt að við verndum verslunarfólkið okkar!

Ragnar Þór Ingólfsson,
Formaður VR og Landssambands íslenzkra verzlunarmanna.