Vinningshafi í jólaleik VR 2017

Fréttir - 22.12.2017
Vinningshafi í jólaleik VR 2017

VR hefur staðið fyrir jólaleik á Facebooksíðu sinni undanfarna daga og var fólk beðið að senda inn myndir og sögur af einhverju tengdu jólunum. VR gefur 500 þúsund krónur til Kvennaathvarfsins í nafni vinningshafans.

Mynd Jónu Salvarar Kristinsdóttur bar sigur úr býtum en dómnefnd valdi myndina úr þeim þremur myndum sem hlutu flest „like“ og deilingar á Facebook. Vinningsmyndin er af syni Jónu þar sem hann situr ársgamall ofan á risastórum jólapakka, að vonum ánægður með herlegheitin.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, afhenti í dag, 22. desember 2017, Kvennaathvarfinu hálfa milljón króna í nafni Jónu Salvarar en Jóna sjálf átti ekki heimangengt þar sem hún er búsett á Sauðárkróki.

Hér má sjá vinningsmyndina hennar Jónu.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, var himinlifandi með heimsókn VR og þakklát fyrir styrkinn. Ragnar Þór afhenti athvarfinu jafnframt fjölda jólagjafa sem starfsfólk VR hafði safnað til þeirra barna og kvenna sem dvelja í Kvennaathvarfinu um jólin.
„Styrkur af þessu tagi er okkur afar mikilvægur, bæði gerir hann okkur kleift að bæta þjónustu við konur og börn í athvarfinu en að auki er mikilvægt að vita af því að fólki „þarna úti“ er ekki sama um athvarfið og íbúa þess sem svo sannarlega er ekki hávær eða heimtufrekur hópur. Jólagjöfunum verður komið í hendur íbúa athvarfsins en það stefnir í að það verði fullt hús hjá okkur um jólin. Við höldum allsnægtajól þetta árið, þökk sé þeim fjölmörgu sem hafa hugsað hlýlega til athvarfsins og íbúa þess.“

VR þakkar öllum sem tóku þátt í leiknum og bendir á að í raun voru þeir allir sigurvegarar en með því að taka þátt og deila sögum sínum og myndum lögðu þátttakendur sitt af mörkum í að skapa umræðu um Kvennaathvarfið og það ómetanlega starf sem Kvennaathvarfið og starfsfólk þess sinnir á degi hverjum.

Þær fjöldamörgu myndir sem bárust VR má skoða hér og lesa sögurnar sem fylgdu.