VR fær samþykkta flýtimeðferð á máli sínu gegn Fjármálaeftirlitinu

Fréttir - 29.07.2019
VR fær samþykkta flýtimeðferð á máli sínu gegn Fjármálaeftirlitinu

Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti í dag flýtimeðferð á dómsmáli VR gegn Fjármálaeftirlitinu. Í málinu stefnir VR Fjármálaeftirlitinu og Lífeyrissjóði verzlunarmanna til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun.VR gerir kröfu um að dæmd verði ógild ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 3. júlí 2019 þess efnis að stjórnarmenn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars 2019, séu enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins.

Það liggur fyrir að VR tilnefnir fjóra aðalmenn í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og fjóra varamenn. Á fundi fulltrúaráðs VR 20. júní 2019 var samþykkt að afturkalla umboð allra stjórnarmanna, bæði aðal- og varamanna, sem sitja í umboði VR í stjórn lífeyrissjóðsins. Í kjölfarið tók fulltrúaráðið ákvörðun um að skipa nýja stjórnarmenn VR í lífeyrissjóðnum. Daginn eftir virðist Fjármálaeftirlitið hafa tekið málið til skoðunar að eigin frumkvæði og var ákvörðun tekin í málinu 3. júlí 2019 þess efnis að þeir stjórnarmenn sem tilkynntir voru til Fjármálaeftirlitsins þann 23. mars 2019 væru enn stjórnarmenn lífeyrissjóðsins. Byggir sú niðurstaða á þeirri forsendu að fulltrúaráð VR hafi tekið ákvörðun um að afturkalla umboð stjórnarmanna en það hafi þeim ekki verið heimilt að gera, heldur hafi það verið á valdi stjórnar.

Stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins var haldin verulegum annmarka, bæði að formi og efni til, og er þannig ógildanleg. Má þar meðal annars nefna að Fjármálaeftirlitinu bar að veita VR stöðu aðila í stjórnsýslumálinu en það var ekki gert. Þá sinnti Fjármálaeftirlitið ekki tilkynningarskyldu sinni þar sem VR var ekki tilkynnt að málið væri til meðferðar og ekki heldur um niðurstöðu málsins. Þá viðhafði Fjármálaeftirlitið ekki fullnægjandi rannsókn við meðferð málsins. Fjármálaeftirlitið aflaði jafnframt ekki nauðsynlegra gagna og var ákvörðun þess því byggð á röngum upplýsingum. Fullnægjandi rannsókn hefði leitt í ljós að fulltrúaráð VR hefur fengið framselda heimild til þess að skipa stjórnarmenn í Lífeyrissjóð verzlunarmanna frá stjórn VR. Þá var VR ekki gefinn kostur á að kynna sér gögn máls eða koma að frekari upplýsingum um málsatvik og var þannig brotið gegn andmælarétti VR. Ljóst er að stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins var haldin verulegum annmörkum sem leiða til þess að ógilda beri ákvörðunina.

Nýjustu fréttir

Skrá mig á póstlista VR