Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_adalfundur_2018-1.jpg

Almennar fréttir - 06.07.2018

VR fagnar niðurstöðu félagsdóms

VR fagnar niðurstöðu félagsdóms í máli trúnaðarmanns hjá Einingu-Iðju en í úrskurðinum kemur fram að ekki sé heimilt að skerða rétt trúnaðarmanna til að sækja námskeið er varða hlutverk þeirra. 

Tildrög málsins voru þau að trúnaðarmaður hjá Einingu-Iðju sótti trúnaðarmannanámskeið í þrjá daga sem stóðu yfir á dagvinnutíma. Tvo þessara daga átti trúnaðarmaðurinn að vinna kvöldvaktir í beinu framhaldi af námskeiðinu en taldi sig ekki eiga að tapa reglubundnum launum þótt hún mætti ekki í vinnu. Atvinnurekandinn, Akureyrarkaupstaður, var ósammála þessu og skerti laun konunnar. 

Í úrskurðinum segir að trúnaðarmannanámskeiðið hafi haft bein áhrif á getu konunnar til þess að sækja vinnu en hún eigi kjarasamningsbundinn rétt til þess að sitja slík námskeið sem trúnaðarmaður. Samkvæmt kjarasamningi er miðað við að að trúnaðarmenn, sem sækja slík námskeið, skuli halda reglubundnum launum í allt að fimm vinnudaga á ári, enda séu námskeiðin viðurkennd af samningsaðilum. 

VR fagnar niðurstöðu félagsdóms enda sýnir hún á afdráttarlausan hátt þann skýlausa rétt trúnaðarmanna til að sækja sér kjarasamingsbundna fræðslu án skerðingar launa.

Hér má lesa dóminn í heild sinni. 

Upplýsingar um störf trúnaðarmanna hjá VR má nálgast hér.