VR mótmælir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Fréttir - 06.04.2018
VR mótmælir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Stjórn VR gerir alvarlegar athugasemdir við nýútgefna fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019 - 2023 og sendi frá sér í dag, 6. apríl 2018, eftirfarandi ályktun:

Stjórn VR lýsir miklum vonbrigðum með nýútgefna fjármálaáætlun ríkisstjórnar Íslands sem fylgt var úr hlaði með þeim öfugmælum að „samfélagið allt njóti góðs af yfirstandandi hagvaxtarskeiði og að samfélagslegur stöðugleiki og lífsgæði verði treyst til framtíðar“. Þvert á móti er einmitt ekkert tekið á þeim grafalvarlega hnút sem kominn er upp í öllum kjaraviðræðum á íslenskum vinnumarkaði vegna ákvörðunar kjararáðs. Hnút sem raskar samfélagslegum stöðugleika og misskiptir lífsgæðum svo gróflega að skömm er að. Hnút sem sýnir þvert á móti að stjórnvöld hafa ekki minnsta áhuga á því að dreifa þeim gæðum sem verða til á því mikla hagvaxtarskeiði sem þau hreykja sér af.

Þótt finna megi jákvæða punkta í áætluninni vegur það mun þyngra sem þar vantar og verður því ekki öðruvísi lýst en sem gríðarlegu ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda. Má þar sem dæmi nefna það neyðarástand sem ríkir í húsnæðismálum þjóðarinnar og hina brýnu þörf sem er á hækkun barna- og húsnæðisbóta. Þá má gera ráð fyrir að boðuð hækkun á bensínverði leiði til aukinnar verðbólgu og hækkunar á verðtryggðum húsnæðislánum almennings.

Stjórn VR hefur áður lagt, og leggur enn, áherslu á mikilvægi hækkunar persónuafsláttar fremur en lækkun tekjuskattsprósentu sem hefur lítið að segja fyrir fólk með lægstar tekjur. Sem dæmi má nefna að launamaður á lágmarkstekjum, kr. 280.000, fengi í sinn vasa kr. 2.576 ef tekjuskattur væri lækkaður um 1% stig. En einstaklingur á góðum launum svo sem kr. 1.132.632, fengi fjórfalt hærri uppæð á sín laun eða kr. 10.420.

Það er holur hljómur í þeim orðum ríkisstjórnarinnar að með þessari fjármálaáætlun sé lögð áhersla „á að gott samstarf takist milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að varðveita efnahagslegan stöðugleika og efla velferð.“ Því hafnar stjórn VR algerlega.

Nýjustu fréttir

Skrá mig á póstlista VR