Athugið að þessi frétt er meira en ársgömul
vr_adalfundur_2018-1.jpg

Almennar fréttir - 14.01.2019

VR styður Gráa herinn

Stjórn VR samþykkti einróma á síðasta fundi sínum þann 9. janúar sl. að styðja við Gráa herinn, baráttuhóp eftirlaunafólks á vegum Félags eldri borgara sem er að undirbúa málssókn gegn íslenska ríkinu vegna skerðinga á ellilífeyrissgreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. VR hyggst leggja fram eina milljón króna vegna málskostnaðar þeirra og hvetur önnur stéttarfélög til þess að leggja hönd á plóg og að skipa sér í lið með eldri borgurum sem auðvitað eru einnig eldri félagsmenn stéttarfélaga. Þannig er í raun um að ræða hreint kjaramál sem stéttarfélögunum ber að koma að.

Um er að ræða þann gjörning þegar lágmarksframfærslu sem allt eftirlaunafólk átti að fá frá ríkinu við 67 ára aldur var komið yfir á lífeyrissjóði launafólks. En lífeyrissjóðsgreiðslur áttu í upphafi aðeins að vera viðbót við lágmarksframfærslu frá ríki og þannig koma þeim til góða sem lögðu á sig að spara reglulega með lífeyrissjóðsgreiðslum en ekki að það yrði eins og er í dag að fyrir suma breyti það engu hvort þeir hefðu sleppt því að greiða í lífeyrissjóð alla sína starfsævi því það kemur á sama stað niður. Grái herinn hefur litið svo á að um hreina eignaupptöku væri að ræða og vill VR styðja þau í sinni réttlætisbaráttu með þessu framlagi.