Virðing á vinnustaðnum 2015

Mikill meirihluti svarenda í könnun VR á Fyrirtæki ársins, eða 85%, nýtur virðingar sem einstaklingar á vinnustaðnum. Nær þrír af hverjum fjórum svarendum geta nýtt hæfileika sína til fulls í vinnunni. Það vekur athygli að þessi viðhorf finnast frekar á smærri vinnustöðum en þeim stærri.

Hvernig er þitt framlag metið?

Í könnuninni í ár var leitast við að fá svör við spurningum sem varða upplifun starfsmanna þegar kemur að virðingu fyrir einstaklingum og framlagi þeirra á vinnustaðnum. Mikill meirihluti er jákvæður þegar kemur að virðingu og réttlæti almennt, átta af hverjum tíu segja að á vinnustað þeirra þrífist ólíkar skoðanir og enn fleiri segja að á vinnustaðnum starfi ólíkir einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn. Virðing er borin fyrir einstaklingum á íslenskum vinnustöðum að mati 85% svarenda í könnuninni.

Stærð vinnustaðar hefur áhrif

Stærð vinnustaðar og atvinnugrein eru meðal þess sem hefur áhrif á niðurstöðurnar. Starfsmenn smærri vinnustaða eru jákvæðari en starfsmenn á fjölmennustu vinnustöðunum og á það við um flestar spurningar hvað þetta varðar. Munurinn er ekki mikill, en engu að síður marktækur. Á grafinu má sjá hlutfall þeirra sem eru sammála staðhæfingunni eftir stærð fyrirtækja. Smelltu á grafið til að sjá stærra eintak

Virðing á vinnustað - Fyrirtæki ársins 2015