Fyrirtæki ársins - sigurvegarar & hástökkvarar 2016

Johan Rönning, Expectus og Vinnuföt eru Fyrirtæki ársins 2016 samkvæmt niðurstöðum könnunar VR meðal félagsmanna og fjölda annarra starfsmanna á vinnumarkaði. Rönning vinnur nú fimmta árið í röð og Vinnuföt það fjórða. Expectus var í öðru sæti í fyrra.

Hástökkvarar ársins eru þrír. Þeir eru Klettur - sala og þjónusta í hópi stóru fyrirtækjanna, Fastus í hópi meðalstórra fyrirtækja og Karl K. Karlsson í hópi minni fyrirtækja.

Sigurvegarar ársins 2016 í flokki stórra fyrirtækja

Johan Rönning

Fyrsta sætið í flokki stórra fyrirtækja

Johan Rönning er Fyrirtæki ársins 2016 í hópi stórra fyrirtækja og er það fimmta árið í röð sem fyrirtækið hlýtur þennan titil. Hjá Rönning starfa um 80 starfsmenn og hefur fyrirtækið boðið öllum starfsmönnum sínum þátttöku í könnuninni nær óslitið frá 2003. Heildareinkunn Rönning er 4,64 af 5 mögulegum sem er svipuð einkunn og á síðasta ári. Meðaltal stærri fyrirtækja er 4,13. Rönning fær yfir 4,7 fyrir fjóra lykilþætti, ímynd fyrirtækis (4,75), starfsanda (4,79), ánægju og stolt (4,79) og jafnrétti sem er nýr þáttur en starfsmenn gefa fyrirtæki sínu 4,78 í einkunn fyrir jafnrétti.

Öryggismiðstöðin

Annað sætið í flokki stórra fyrirtækja

Í öðru sæti stórra fyrirtækja, þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri, er Öryggismiðstöð Íslands annað árið í röð en fyrirtækið fær 4,46 í einkunn. Hæstu einkunnir fyrirtækisins eru fyrir lykilþættina stjórnun og ánægju og stolt, 4,7. Lægsta einkunn Öryggismiðstöðvarinnar er 3,78 fyrir þáttinn launakjör. Einungis félagsmenn VR taka þátt í könnuninni hjá Öryggismiðstöðinni.

Nordic Visitor

Þriðja sætið í flokki stórra fyrirtækja

Í þriðja sæti er Nordic Visitor sem býður öllum starfsmönnum fyrirtækisins þátttöku. Einkunn Nordic Visitor er 4,42 en var í fyrra 4,47 en þá var fyrirtækið einnig í þriðja sæti stórra fyrirtækja. Hæstu einkunn fær Nordic Visitor fyrir þáttinn ímynd fyrirtækis, 4,95 sem er langhæsta einkunn stórra fyrirtækja fyrir þann þátt. Lægstu einkunn fær fyrirtækið fyrir þáttinn launakjör, 3,21.

Fyrirtæki ársins 2016 í flokki meðalstórra fyrirtækja

Expectus

Fyrsta sætið í flokki meðalstórra fyrirtækja

Expectus er Fyrirtæki ársins 2016 í hópi millistórra fyrirtækja með einkunnina 4,7 en meðaltalið í þessum stærðarflokki er 4,14. Fyrirtækið var í öðru sæti á síðasta ári. Hæsta einkunn Expectus er fyrir þáttinn stjórnun, 4,90 sem er mun hærra en meðaltalið fyrir þáttinn í þessum stærðarflokki en það er 4,14. Expectus fær einnig háa einkunn fyrir starfsanda (4,86) og ánægju og stolt af fyrirtæki (4,83). Lægsta einkunn Expectus, eins og flestra annarra fyrirtækja, er fyrir lykilþáttinn launakjör, 3,92. Einungis félagsmenn VR taka þátt í könnuninni hjá Expectus.

Margt smátt

Annað sætið í flokki meðalstórra fyrirtækja

Í öðru sæti millistórra fyrirtækja er Margt smátt með einkunnina 4,66. Fyrirtækið var í 9. sæti á síðasta ári. Margt smátt fær 4,93 fyrir þáttinn ímynd fyrirtækis en meðaltal allra fyrirtækja fyrir þennan þátt er 4,3. Margt smátt fær einnig háa einkunn fyrir jafnrétti eða 4,86 en meðaltalið er 4,1. Lægsta einkunn hjá Margt smátt er fyrir vinnuskilyrði, 4,3. Einungis félagsmenn VR hjá fyrirtækinu taka þátt í könnuninni.

Heilsugæslan Salahverfi

Þriðja sætið í flokki meðalstórra fyrirtækja

Í þriðja sæti í þessum stærðarflokki er Heilsugæslan Salahverfi sem býður öllum starfsmönnum þátttöku, óháð stéttarfélagsaðild. Heildareinkunn fyrirtækisins er 4,57 en hæstu einkunnir eru fyrir þættina ímynd (4,72) og ánægju og stolt af fyrirtækinu (4,88). Lægsta einkunnin er fyrir launaþáttinn, 4,22, sem er engu að síður vel yfir meðaltalinu sem er 3,39.

Fyrirtæki ársins 2016 í flokki minni fyrirtækja

Vinnuföt

Fyrsta sætið í flokki minni fyrirtækja

Vinnuföt eru Fyrirtæki ársins í hópi minnstu fyrirtækja, þar sem starfsmenn eru færri en 20. Þetta er fjórða árið í röð sem fyrirtækið hlýtur þennan titil. Vinnuföt fá fullt hús stiga, alls 5 stig, fyrir fimm lykilþætti; starfsanda, sjálfstæði í starfi, ímynd, ánægju og stolt af fyrirtæki og launakjör en fyrirtækið er jafnframt það eina sem fær fimm stig fyrir þann þátt. Lægsta einkunn er 4,9 fyrir stjórnun. Enginn lykilþáttur fær undir 4,9 í einkunn. Heildareinkunn fyrirtækisins er 4,97 sem er umtalsvert hærra en meðaltal fyrirtækja í þessum stærðarflokki en það er 4,26.

Verslunartækni

Annað sætið í flokki lítilla fyrirtækja

Í öðru sæti í þessum stærðarflokki er Verslunartækni með 4,87 í einkunn. Hæsta einkunn fyrirtækisins er 4,96 fyrir þáttinn ánægja og stolt af fyrirtækinu en sú lægsta er 4,55 fyrir launakjörin.

Skattur og bókhald

Þriðja sætið í flokki lítilla fyrirtækja

Í þriðja sæti er Skattur og bókhald með 4,86 í heildareinkunn. Fyrirtækið fær yfir 4,9 fyrir þrjá lykilþætti; vinnuskilyrði, sveigjanleika í vinnu og ímynd fyrirtækis.

Hástökkvarar ársins 2015

Klettur - sala og þjónusta

Klettur - sala og þjónusta er hástökkvarinn í flokki fyrirtækja þar sem starfsmenn eru fimmtíu eða fleiri. Fyrirtækið er nú í hópi fyrirmyndarfyrirtækja, þ.e. fyrirtækja í tíu efstu sætum hvers stærðarflokks. Klettur er í 8. sæti en var í sæti 47 á síðasta ári. Einkunn fyrirtækisins í ár er 4,37 en var 4,07 árið 2015. Einkunn fyrir stjórnun (sem áður hét trúverðugleiki stjórnenda) hækkar mikið á milli ára, fer úr 3,92 í fyrra í 4,27 í ár en meðaltal stærri fyrirtækja fyrir þennan þátt er 4,15. Mesta hækkun milli ára er þó fyrir þáttinn starfsandi, einkunn fyrir þann þátt í fyrra var 4,21 en er í ár 4,69.

Fastus

Í hópi millistórra fyrirtækja, þar sem starfsmenn eru á bilinu 20 til 49 talsins, er Fastus hástökkvarinn með 4,54 í einkunn í ár samanborið við 4,14 í fyrra. Fastus er nú í hópi tíu efstu fyrirtækja í sínum stærðarflokki og er því fyrirmyndarfyrirtæki 2016, er í 7. sæti í ár samanborið við sæti 59 í fyrra. Eins í tilfelli hástökkvarans í hópi stærstu fyrirtækjanna hækkar einkunn fyrir stjórnun mikið á milli ára hjá Fastus, fer úr 3,93 í 4,31. En mesta breytingin er fyrir þáttinn launakjör, einkunn fyrir þann þátt fer úr 3,55 í 4,15 sem er mikið hærra en meðaltalið í þessum stærðarflokki en það er 3,39.

Karl K. Karlsson

Hástökkvarinn í hópi minnstu fyrirtækjanna er Karl K. Karlsson sem í ár er í sæti 31 á listanum en var í sæti 71 á síðasta ári, stökkið er því stórt. Einkunn fyrirtækisins í ár er 4,26 en var 3,68 á síðasta ári. Einkunnir fyrir alla lykilþættina hækka, margar mjög mikið. Einkunnir fyrir ímynd fyrirtækisins og fyrir þáttinn ánægja og stolt hækka mikið sem og einkunnir fyrir launakjör og starfsanda. En stærsta breyting á milli áranna 2015 og 2016 er hvað varðar viðhorf til stjórnunar fyrirtækisins, einkunn fyrir stjórnun hækkar um rúmlega einn, fer úr 3,38 í 4,46.

Allar niðurstöður