Jafnrétti í hávegum haft

Rúmlega 80% svarenda í könnun VR segja að jafnrétti ríki á þeirra vinnustað, hvort sem litið sé til kyns starfsmanna, aldurs þeirra, uppruna eða annarra þátta. Fjölbreytni virðist mikil í hópi starfsmanna, einkum stærri fyrirtækja, og mikill minnihluti svarenda könnunarinnar telur að starfsfólki sé mismunað á þeirra vinnustað. Í ár er í fyrsta skipti spurt sérstaklega um jafnréttismál þar sem niðurstöðurnar hafa áhrif á val á Fyrirtæki ársins.

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins 2016 er spurt um viðhorf til níu lykilþátta – fleiri en síðustu ár. Nýr þáttur kemur inn í könnunina í ár, Jafnrétti. Þessi þáttur snýr að stórum hluta að jafnrétti kynjanna en tekur einnig til annarra þátta og er þannig í takt við þá áherslu sem félagið hefur lagt á mikilvægi fjölbreytni á vinnustað en herferð um það var hrint af stokkunum í vor.

Sex spurningar liggja til grundvallar einkunn fyrirtækja fyrir jafnrétti. Spurt er hvort kynin hafi jafna möguleika til starfsframa á vinnustaðnum, hvort skýr stefna sé um jafnrétti karla og kvenna, hvort bæði kynin gegni ábyrgðarstöðum á vinnustaðnum og hvort áhersla sé lögð á jafnrétti kynjanna. En einnig er spurt hvort fólki sé mismunað á vinnustaðnum t.d. eftir aldri, kyni, uppruna, kynhneigð eða trúar- eða lífsskoðana og hvort á vinnustaðnum starfi fjölbreyttur hópur starfsmanna. Niðurstaðan er sú að 83% svarenda gefa þessum þætti góða einkunn á sínum vinnustað.

Umtalsverður munur er á viðhorfum til jafnréttis eftir kyni, aldri, menntun og fleiri þáttum. Mun fleiri karlar, eða 87%, gefa jafnrétti á vinnustaðnum almennt góða einkunn en 80% kvenna. Yngra fólk er jákvæðara en það eldra og þeir sem hafa langskólamenntun að baki eru einnig jákvæðari en þeir sem hafa skemmri menntun.

Það er áhugavert að í fyrirtækjum þar sem starfa á bilinu 50 – 99 starfsmenn eru þeir almennt jákvæðari en þar sem starfsmennirnir eru fleiri eða færri. Þá er einnig umtalsverður munur á viðhorfum þeirra sem hafa mannaforráð og annarra, þeir fyrrnefndu eru mun líklegri til að segja að staðan sé góð hvað jafnréttið varðar á vinnustaðnum, 88% á móti 82%.

Umtalsverður munur á viðhorfi kynjanna

Ef við skoðum fyrst viðhorfið til jafnréttis kynjanna má sjá að mikill meirihluti svarenda – 81% - telur að á þeirra vinnustað fái kynin sömu tækifæri til starfsframa. Skýr stefna er um jafnrétti kynjanna á vinnustaðnum segja 74% svarenda og 75% segja að lögð sé áhersla á kynjajafnrétti. Munur er á viðhorfum kynjanna, og telja karlar alltaf jafnréttið meira á vinnustaðnum en konur. Mestur er munurinn þegar spurt er um tækifæri karla og kvenna til starfsframa á vinnustaðnum, 87% karla telja að kynin hafi sömu tækifæri á móti 75% kvenna.

Jafnrétti

Stærð og atvinnugrein hafa áhrif

Þá er afgerandi munur eftir stærð vinnustaðar, færri telja að tækifæri kynjanna séu jöfn í stærstu fyrirtækjunum, 78% þar sem starfsmenn eru 100 eða fleiri, en mun fleiri á þeim minnstu, 85% þar sem starfsmenn eru færri en 20. Atvinnugreinin hefur einnig áhrif, í fyrirtækjum í sérhæfðri þjónustu og í félagasamtökum segja vel yfir 80% að tækifæri kynjanna til starfsframa séu jöfn en einungis 71% í fyrirtækjum í samgöngum og flutningum og 74% í iðnaðarfyrirtækjum. Svipað er uppi á teningnum þegar spurt er hvort áhersla sé lögð á jafnrétti kynjanna á vinnustaðnum, innan við 70% starfsmanna fyrirtækja í iðnaði og samgöngum segja svo vera.

Fjölbreytni í íslenskum fyrirtækjum

En þá að jafnrétti í víðara samhengi. Góður meirihluti segir að fólki sé almennt ekki mismunað á vinnustaðnum t.d. eftir aldri, kyni, uppruna, kynhneigð eða trúar- eða lífsskoðunum, eða 83%. Fjölbreytni í starfsmannahópnum á íslenskum vinnustöðum virðist einnig vera góða, að því er niðurstöðurnar, sýna, 81% svarenda segia að á vinnustaðnum starfi fjölbreyttur hópur einstaklinga þegar kemur að aldri, kyni eða öðrum þáttum sem taldir voru upp hér að framan.

Það má hins vegar sjá nokkurn mun eftir bakgrunnsþáttum, t.d. stærð fyrirtækis og atvinnugrein. 81% svarenda í stærstu fyrirtækjunum, þar sem starfsmenn eru 100 eða fleiri, eru sammála þeirri staðhæfingu að starfsfólki sé ekki mismunað á vinnustaðnum en 86% minnstu fyrirtækjanna og 85% fyrirtækja þar sem starfsmenn eru 50 – 99 talsins. Fjölbreytni starfsmannahópsins er hins vegar mest í stærstu fyrirtækjunum, þar segja 85% að á vinnustaðnum starfi fjölbreyttur hópur einstaklinga en innan við 73% í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru færri en 50, kannski eðli málsins samkvæmt.

mynd - Fyrirtæki ársins 2016

Allar niðurstöður