Nokkrar helstu niðurstöður

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins er spurt um viðhorf til fjölmargra þátta, alls eru spurningarnar um 60 talsins. Hér að neðan er fjallað um nokkrar helstu niðurstöður könnunarinnar árið 2017. Athugið að þegar rætt er um einkunnir, er miðað við öll svör sem bárust, ekki eingöngu svör starfsmanna fyrirtækja sem komust á lista yfir Fyrirtæki ársins. Hér liggja því að baki svör um 13 þúsund starfsmanna á vinnumarkaði.

Meiri ánægja með stjórnun fyrirtækja

Einkunn fyrir stjórnun fyrirtækja er hærri nú en nokkurn tíma áður eða 4,16 af fimm mögulegum. Undir þessum þætti er spurt um viðhorf til næsta yfirmanns sem og yfirstjórnar fyrirtækisins. M.a. er spurt hvort viðkomandi fái stuðning og hvatningu, hvort næsti yfirmaður sýni starfsfólki virðingu og hvort starfsfólki sé hrósað standi það sig vel. 85% svarenda segja að sinn næsti yfirmaður virði starfsfólkið mikils og svipað hlutfall segir að hann sé sanngjarn. Þá segja átta af hverjum tíu svarendum að þeir fái stuðning og hvatningu frá sínum næsta yfirmanni og sjö af hverjum tíu segja að á vinnustaðnum sé starfsfólki hrósað standi það sig vel.

Það vekur athygli að munur er á viðhorfum starfsmanna eftir stærð fyrirtækja, þ.e. starfsmenn stærstu fyrirtækjanna - þar sem starfsmenn eru fleiri en 100 - gefa þessum þætti lægri einkunn en starfsmenn minni fyrirtækja.

Aukinn sveigjanleiki

Sveigjanleiki í starfi hefur löngum fengið hæstu einkunn í könnun VR og svo er einnig í ár en þessi þáttur fær einkunnina 4,38 af fimm mögulegum og 91% svarenda eru ánægð með þann sveigjanleika sem þeir hafa í vinnunni.

Alls segjast 91% svarenda hafa svigrúm í vinnutímanum til að útrétta, ef þörf krefur og svipað hlutfall getur farið úr vinnu með stuttum fyrirvara til að sinna aðkallandi erindum í einkalífi. Þá segjast 88% svarenda eiga alltaf eða oftast auðvelt með að samræma vinnu og fjölskyldulíf.

Ímyndin hækkar

Ímynd fyrirtækja hefur ekki mælst hærri frá því eftir hrun, en frá og með árinu 2009 var gerð breyting á þættinum sem gerir það að verkum að ekki er hægt að bera saman þennan þátt við árin þar á undan að fullu leyti. Einkunn fyrir ímynd var 4,11 árið 2009 en er í dag 4,21. Hæsta mögulega einkunn er fimm.

Spurningar um ímynd snúa einkum að því hvernig starfsmenn meta viðhorf annarra til fyrirtækisins. Starfsmenn eru þannig beðnir um að taka afstöðu til staðhæfinga á við "Á heildina litið hafa viðskiptavinir jákvæða afstöðu til fyrirtækisins" og Þegar fyrirtækið sem ég starfa hjá ber á góma er sú umræða yfirleitt vinsamleg".

Hvað fyrri staðhæfinguna varðar, að afstaða viðskiptavina sé almennt jákvæð, eru 89% svarenda sammála henni. Þarna er mikill munur eftir stærð fyrirtækis. Þannig eru 86% svarenda stærstu fyrirtækjanna sammála þessari staðhæfingu en 92% þeirra minnstu. Ef litið er til atvinnugreina má sjá að 75% svarenda í iðnaði segja að umræðan um fyrirtækið sé yfirleitt jákvæð en 87% starfsmönnum samtaka og félaga.

Sanngirni launa

Launakjör fá lægstu einkunn allra þátta í könnun VR á Fyrirtæki ársins og hefur svo alltaf verið. Meirihluti telur þó að laun starfsfólksins séu ákveðin af sanngirni eða 57%. Þeir sem eru ósammála því eru 17% svarenda. 

Umtalsverður munur er á svörum eftir starfi, atvinnugrein og stærð fyrirtækis Stjórnendur eru ánægðastir hér, 66% þeirra telja að ákvörðun launa sé sanngjörn en u.þ.b. helmingur þeirra sem vinna skrifstofustarf eða sölu- eða afgreiðslustarf. Þá segja 71% starfsmanna minnstu fyrirtækjanna að launin séu ákvörðuð af sanngirni en 51% allra stærstu fyrirtækjanna, þar sem starfsmenn eru 100 eða fleiri.

Í könnuninni er spurt hvort svarendur telji að vinnuveitandi þeirra veiti betri, svipuð eða verri launakjör og gert er á öðrum sambærilegum vinnustöðum. Fæstir telja að launakjörin séu betri en almennt eða 21%. Flestir telja að þau séu svipuð eða 52% en rúmur fjórðungur eða 27% telja að launakjörin á vinnustaðnum séu verri en á öðrum sambærilegrum vinnustöðum.

Hér má sjá svör starfsmanna við spurningunni um sambærileg launakjör eftir stærð fyrirtækjanna. Hjá minnstu fyrirtækjunum eru starfsmenn færri en 20 talsins, hjá þeim næstu eru þeir 20 til 49 talsins, hjá næststærstu fyrirtækjunum eru starfsmenn 49 til 99 talsins en hjá þeim stærstu eru starfsmenn 100 eða fleiri.

Hvað með jafnréttið?

Spurt hefur verið um jafnrétti karla og kvenna á vinnustaðnum í könnun VR undanfarin ár. Í fyrra var ákveðið að jafnrétti yrði sérstakur þáttur og nær þá til jafnréttis á vinnustaðnum í víðara samhengi, þ,e. jafnrétti eftir t.d. kyni, aldri, uppruna, kynhneigð eða trúar- eða lífsskoðunun.

Það er ánægjulegt að einkunn fyrir þennan þátt hækkar á milli ára og er núna 4,22 samanborið við 4,16 á síðasta ári. Mikill meirihluti, eða 87% svarenda, segia að á vinnustaðnum njóti allir jafnræðis. Í fyrra var þetta hlutfall 83%. 

75% svarenda segja að áhersla sé lögð á jafnrétti kynjanna á vinnustað þeirra en hér má sjá nokkurn mun eftir atvinnugreinum. Til dæmis segja 67% svarenda í iðnaði og sama hlutfall svarenda í fyrirtækjum í samgöngum og ferðaþjónustu að áhersla sé á jafnrétti kynjanna á móti 81% svarenda í fyrirtækjum í sérhæfðri þjónustu og fjármálageira.