Hæsta heildareinkunn sem mælst hefur

Í könnun VR á Fyrirtæki ársins er spurt um viðhorf til níu lykilþátta í starfsumhverfinu. Þættina má sjá í töflunni hér að neðan. Gefin er einkunn fyrir hvern þátt, frá einum og upp í fimm, og saman mynda þær heildareinkunn, annars vegar þeirra fyrirtækja sem birt eru á listum og svo heildareinkunn allra svarenda. Vægi þáttanna í heildareinkunn er misjafnt, stjórnun fyrirtækisins vegur þyngst (sjá umfjöllun um framkvæmdina).

Heildareinkunn í ár er sú hæsta sem mælst hefur og á það líka við um nokkra lykilþætti. Stjórnun hefur aldrei mælst hærri né sveigjanleiki vinnu. Ímynd fyrirtækis hefur hækkað síðustu ár. Einkunn fyrir þann þátt lækkaði nokkuð í kjölfar hrunsins en hefur hækkað nánast árlega frá árinu 2011. 

Myndin hér fyrir neðan sýnir lykilþættina níu

Hér er mynd sem sýnir lykilþættina níu

Hér að neðan má sjá þróun lykilþátta síðustu ár. Athugið að hér er miðað við svör allra sem tóku þátt í könnuninni, ekki eingöngu starfsmanna þeirra fyrirtækja sem komust á lista. Það vekur óneitanlega athygli að allar einkunnir voru mjög háar árið 2009. Könnunin er gerð í upphafi hvers árs og var könnunin 2009 því gerð innan við hálfu ári eftir hrun. Helsta skýringin á háum einkunnum það ár er það ástand sem þá ríkti á vinnumarkaði. Niðurstöðurnar endurspegluðu breyttar væntingar, ný viðhorf og samkennd strax í kjölfar hrunsins. Einkunnir frá árinu 2010 ára sýna meira jafnvægi og stöðugleika og á það sama við einkunnir í ár.

Heildareinkunnin sýnir viðhorf starfsmanna almennt til sinna vinnustaða. Heildareinkunn er lægst hjá fyrirtækjum í samgöngum og flutningum sem og í verslun og þjónustu en hæst hjá fyrirtækjum heildsölu, séhæfðri þjónustu og hjá samtökum og félögum. Hún er hærri hjá minni fyrirtækjum en þeim stærri, lægst hjá þeim allra stærstu þar sem starfsmenn eru yfir 100 talsins. 

Viðhorf til lykilþáttanna eru mjög mismunandi eftir starfsheiti og atvinnugrein. Almennt eru stjórnendur ánægðari en aðrir starfsmenn, t.d. þegar skoðuð eru viðhorf til stjórnunar fyrirtækisins, sjálfstæðis í starfi og ímyndar fyrirtækisins sem greinir mat svarenda á viðhorfum annarra til fyrirtækisins. Þeir gefa líka hærri einkunnir þegar kemur að ánægju og stolti af fyrirtækinu. Sérfræðingar með háskólamenntun eru svipaðir og stjórnendur, ánægðari með flesta þætti en aðrir starfsmenn, en þeir eru ekki eins ánægðir með launakjörin og stjórnendur. Starfsfólk við sölu og afgreiðslu og við lager og framleiðslustörf er almennt óánægðast þegar viðhorf eftir starfsheitum er skoðað. Ef litið er til atvinnugreina má sjá að starfsmenn fyrirtækja í sérhæfðri þjónustu og fjármálageiranum, heildsölu og samtaka og félaga eru ánægðastir með sinn vinnustað þegar litið er til heildareinkunnar. 

Hér að neðan má sjá þróun einkunna frá árinu 2009. Athugið að þessar einkunnir byggja á svörum allra þeirra sem tóku þátt í könnuninni, ekki einungis þeirra fyrirtækja sem náðu inn á lista. Hér er því um að ræða svör rúmlega þrettán þúsund manna á almennum vinnumarkaði.

  2009 2010 2011 2012 2013  2014  2015     2016  2017
Heildareinkunn  4,08  4,04  4,05  4,07  4,07  4,07  4,09     4,10 4,14
Stjórnun   4,12  4,05  4,02  4,01  4,03  4,03  4,05     4,12 4,16
Starfsandi  4,37  4,35  4,32  4,32  4,31  4,32  4,33     4,32 4,35
Launakjör  3,40  3,26  3,16  3,19  3,20  3,20  3,20     3,28 3,31
Vinnuskilyrði  4,05  4,03  4,03  4,02  4,03  4,04  4,03     3,94  4,00
Sveigjanleiki vinnu  4,30  4,28  4,26  4,36  4,36  4,36  4,36     4,33 4,38
Sjálfstæði í starfi  4,41  4,33  4,33  4,31  4,30  4,32  4,32     4,31 4,32
Ímynd fyrirtækis  4,11  4,07  4,06  4,09  4,15  4,15  4,18      4,19 4,21
Ánægja & stolt  4,30  4,26  4,22  4,22  4,21  4,21  4,22     4,23  4,26
Jafnrétti                     4,16 4,22