Launakannanir 1999-2018

09.01.2008

Launakönnun VR 2008

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu að meðaltali um 9,9% á milli ára og grunnlaun um 9,7% samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2008. Á sama tímabili hækkuðu laun almennt á vinnumarkaði um 6,8% samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar og ljóst að félagsmenn VR nutu launaskriðs umfram almenna launaþróun milli áranna 2007 og 2008. Launamunur kynjanna stendur nokkurn veginn í stað, en til lengri tíma litið hefur hins vegar dregið verulega saman með kynjunum. Sjá nánari umfjöllun í VR blaðinu.

09.01.2007

Launakönnun VR 2007

Launamunur kynjanna hefur dregist saman um fjórðung frá árinu 2000.

Félagsmenn VR nutu verulegs launaskriðs á milli áranna 2006 og 2007, heildarlaun hækkuðu um 12% á tímabilinu, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar félagsins 2007. Miðað er við laun greidd fyrir janúar. Þessi hækkun er töluvert meiri en almennt á vinnumarkaði á tímabilinu. Á sama tíma hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 10% en vísitalan mælir hækkun launa að meðaltali á vinnumarkaði.

Launakönnunin sýnir einnig að kynbundinn launamunur hefur dregist saman um fjórðung frá árinu 2000 og er sú breyting marktæk. Kynbundinn launamunur, þegar búið er að taka tillit til áhrifaþátta á laun, er nú 11,6% en var 15,3% árið 2000. Sjá nánari umfjöllun í VR blaðinu. 

09.01.2005

Launakönnun VR 2005

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu um 10% á milli áranna 2004 og 2005, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2005. Grunnlaun hækkuðu ívið meira eða um 11%. Stærsti þátturinn í launahækkunum á milli ára eru samningsbundnar hækkarnir, samkvæmt samningi VR og SA, sem mikill meirihluti félagsmanna starfar eftir, hækkuðu laun á tímabilinu um 6,25%.

Sjá nánari umfjöllun í VR blaðinu.

09.01.2003

Launakönnun VR 2003

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði launakönnun meðal félagsmanna VR á árinu 2003 og er það í fimmta skipti sem slík könnun er gerð. Laun hækkuðu að meðaltali um 10% á milli kannana en hafa ber í huga að könnun VR 2003 miðar við janúar í ár en könnunin könnunin þar á undan (árið 2001) byggði á launum fyrir september árið 2001. Á milli kannana að þessu sinni eru því 16 mánuðir. Mesta hækkun meðal einstakra starfsstétta var meðal starfsfólks í umbrots- og grafíkstörfum eða 22% og hærri stjórnenda eða 20%.

Vinnutími virðist vera að lengjast en hann hafði verið að styttast á milli síðustu kannana á undan. Hugsanleg skýring á því kann að vera aukin þensla á vinnumarkaði. Þá kann að vera að fjöldauppsagnir undanfarinna mánaða hafi þau áhrif að þeir starfsmenn sem eftir eru hafi þurft að lengja vinnutíma sinn.

Launamunur kynjanna hefur minnkað og það vekur athygli að launaviðtöl eru að skila konum hlutfallslega oftar launahækkun en körlum. Mun fleiri svarendur í könnuninni nú hafa farið í launaviðtal eða um helmingur, en það hlutfall var 40% í síðustu könnun. Sjá nánari umfjöllun í VR blaðinu.

09.01.2001

Launakönnun VR 2001

Heildarlaun félagsmanna VR hækkuðu um 8% á milli áranna 2000 og 2001 og dagvinnulaun um 10%, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR fyrir árið 2001. Þetta er í fjórða skipti sem VR lætur gera launakönnun meðal félagsmanna sinna og í fyrsta sinn sem félagsmenn Verslunarmannafélags Akraness, VA, eru með í könnuninni.

Hugmyndafræðin bak við könnunina er að komast að því hver eru markaðslaun í mismunandi starfsgreinum svo félagsmenn geti borið laun sín saman við þau laun sem greidd eru í hliðstæðum starfsgreinum. Launakönnunin veitir einnig mikilvæga innsýn inn í þróun launa og launamunar milli kynja, auk þess sem aðrir áhugaverðir þættir koma upp á yfirborðið.

09.01.2000

Launakönnun VR 2000

Félagsvísindastofnun HÍ sá um framkvæmd launakönnunar VR 2000. Könnunin miðar við laun greidd fyrir september.

Kjararannsóknarnefnd hefur staðið að launakönnunum í rúma þrjá áratugi með það að markmiði að veita aðilum vinnumarkaðarins áreiðanlegar upplýsingar um laun og launaþróun. Launakönnun kjararannsóknarnefndar byggist á handahófsúrtaki fyrirtækja og stofnana með tíu eða fleiri starfsmenn. Launaupplýsingar eru fengnar um öll störf unnin af starfsmönnum átján ára og eldri.

09.01.1999

Launakönnun VR 1999

Að beiðni VR vann Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands launakönnun árið 1999. Markmiðið var að fá sem gleggsta mynd af raunverulegum launagreiðslum til félagsmanna til að auðvelda þeim að bera saman laun sín við þau laun sem greidd eru fyrir sambærileg störf.

Helstu niðurstöður: Ef litið er á svarendur sem eru í 70% starfi eða meira eru þeir að meðaltali með 161 þúsund krónur í dagvinnulaun á mánuði og 183 þúsund krónur í heildarlaun. Hæst laun eru greidd í smásölu með tölvur og skrifstofubúnað eða 242 þúsund krónur á mánuði, og þvínæst í tölvuþjónustu og fjarskiptum. Hærri stjórnendur hafa hæstu launin, eða um 287 þúsund krónur á mánuði. Vinnutími VR félaga í fullu starfi er að jafnaði 45 klukkustundir á viku. Ríflega 70% félagsmanna VR eru í fullu starfi.

03.07.2020

Launakönnun VR 2006

Laun félagsmanna VR hækkuðu um 8% á milli áranna 2005 og 2006, hvort sem er heildarlaun eða grunnlaun, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar félagsins. Samningsbundnar hækkarnir, samkvæmt samningi VR og SA sem mikill meirihluti félagsmanna starfar eftir, voru 2,5% á tímabilinu. Launamunur kynjanna er óbreyttur, fjórða árið í röð. Launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 8,6% á sama tímabili.

Könnunin var gerð frá 31. janúar til 10. apríl og náði til félagsmanna sem greitt höfðu lágmarksfélagsgjald á tólf mánaða tímabili, frá október 2004 til september 2005. Miðað var við laun greidd fyrir janúarmánuð. Spurningalisti var sendur til rúmlega 19.000 félagsmanna og er það 14% aukning frá síðasta ári. Svarhlutfall var 46% sem er eilítið minna en árið 2005. Mikill meirihluti eða rúm 70% svaraði könnuninnni á netinu. Capacent Gallup hafði umsjón með gerð könnunarinnar. Sjá nánari umfjöllun í VR blaðinu.