Laun félagsmanna VR hækka í takt við launaþróun

Frá janúar 2015 til apríl 2016 hækkuðu heildarlaun félagsmanna VR um 15,8% og grunnlaun um 14,3%, samkvæmt niðurstöðum launakönnunar VR 2016. Þessi hækkun er í samræmi við þróun launa á vinnumarkaðnum, launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 14,5% janúar 2015 til apríl 2016 og launavísitala VR um 15,5%.

Þessi hækkun er umfram kjarasamningsbundnar hækkanir á tímabilinu en þær námu alls 11,8% - þ.e. 5,3% meðalhækkun í maí 2015 og 6,2%hækkun skv. kjarasamningum í janúar 2016. Vísitala neysluverðs hækkaði um 3,4% frá janúar 2015 til apríl 2016.

Tvær launakannanir - samningsbundin hækkun skilar sér

VR gerir árlega launakönnun meðal félagsmanna sinna en í ár voru þær tvær, hefðbundin launakönnun sem miðar við laun fyrir janúar 2016 og önnur könnun gerð í vor sem miðar við laun fyrir apríl 2016. Markmið seinni launakönnunarinnar var að kanna hvort launahækkun sem samið var um í kjarasamningum í upphafi árs hafi skilað sér. Svo reyndist vera.

Samkvæmt þessum könnunum hækkuðu heildarlaun félagsmanna VR að meðaltali um 8,9% á milli janúar 2015 og sama mánaðar 2016 og um 6,3% að meðaltali frá janúar 2016 til apríl 2016. Grunnlaun hækkuðu um 8,2% milli janúar 2015 og janúar 2016 og um 5,7% á milli janúar og apríl í ár.

Mismunandi hækkun starfsstétta

Meðalgrunnlaun félagsmanna VR samkvæmt niðurstöðum launakönnunar 2016 eru kr. 589 þúsund á mánuði og meðalheildarlaun eru kr. 635 þúsund á mánuði. Mikill munur er á launum eftir starfsstéttum en innan VR er mikil breidd starfa. Hér að neðan má sjá meðallaun starfsstétta í apríl 2016, og er miðað við yfirflokka.

Skrifstofufólk og starfsfólk við gæslu-, lager- og framleiðslustörf hækkar mest þegar litið er til heildarlauna á tímabilinu frá janúar 2015 til apríl 2016 eða um 19,2% til 19,6%. Hér er um að ræða yfirflokka starfsheita en hækkun launa fyrir einstök störf er hins vegar mismunandi. Ef litið er til atvinnugreina sést að mesta hækkun heildarlauna er hjá fyrirtækjum í heild- og umboðssölu, 17,1%. Hér að neðan má sjá meðallaun yfirlokka starfa og meðalhækkun á tímabilinu janúar 2015 - apríl 2016.

Ítarlegar upplýsingar um laun starfsheita innan yfirflokka og hækkun á milli ára má sjá í bæklingi þar sem allar launatöflur eru birtar. Einnig er á vef VR reiknivél sem sýnir allar launatölur fyrir apríl 2016.

LAUN YFIRFLOKKA STARFA - MEÐALLAUN ÞÚS. PR. MÁNUÐ

 

Grunnlaun

Heildarlaun

   Allir, meðaltal

589

635

   Stjórnendur

712

766

   Sérfræðingar

675

730

   Sérhæft starfsfólk og tæknar

526

558

   Skrifstofufólk

456

488

   Sölu- og afgreiðslufólk

444

498

   Gæslu-, lager- og framl.störf

393

467

HÆKKUN MILLI JANÚAR 2015 OG APRÍL 2016

 

Grunnlaun

Heildarlaun

   Allir, meðaltal

14,3%

15,8%

   Stjórnendur

14,8%

15,8%

   Sérfræðingar

13,4%

15,6%

   Sérhæft starfsfólk og tæknar

15,5%

15,6%

   Skrifstofufólk

17,1%

19,2%

   Sölu- og afgreiðslufólk

11,0%

13,4%

   Gæslu-, lager- og framl.störf

13,2%

19,6%

Launabil hinna hæstu og hinna lægstu

Samanburður á milli þeirra launahæstu og þeirra launalægstu sýnir launabilið innan félagsins. Þau 5% félagsmanna sem eru með hæstu heildarlaunin fá kr. 1.010 þúsund eða hærra á mánuði en þau 5% sem eru með lægstu launin fá kr. 340 þúsund eða lægra í laun á mánuði. Þeir sem eru með hæstu launin eru þannig með 197% hærri heildarlaun en þeir sem eru í hópi hinna 5% lægstlaunuðu eða um þreföld laun þeirra.

Munurinn var umtalsvert meiri fyrir nokkrum árum. Í könnun VR árið 2010 voru laun þeirra sem hafa lægstu launin 25% af launum þeirra hæstlaunuðu. Árið 2011 dró umtalsvert saman með hópunum en það ár voru þeir launalægstu með 33% af launum þeirra sem voru í 5% launahæsta hópnum og hefur það hlutfall svipað síðan. Þeir sem eru með lægstu launin eru með 34% af launum þeirra hæstlaunuðu samkvæmt launakönnuninni í ár.

Launaviðtalið borgar sig

Í kjarasamningi VR er kveðið á um rétt félagsmanna til árlegs viðtals um störf sín og hugsanlega breytingu á starfskjörum. 65% svarenda fóru í starfsmanna eða launaviðtal á síðasta ári, samkvæmt launakönnun VR, sem þýðir að rétt rúmlega þriðjungur fór ekki. Inni í þessum tölum er einnig ráðningarviðtal en um 13% svarenda fóru í ráðningarviðtal 2015.

Þeir sem fóru í viðtal á síðasta ári eru með 5% hærri laun en þeir sem ekki fóru í viðtal og er sá munur marktækur. Viðtöl eru mun algengari í stærri fyrirtækjum en þeim smærri, um 73% starfsmanna í fyrirtækjum þar sem starfa 100 eða fleiri fóru í viðtal í fyrra en 63% þar sem starfsmenn eru færri en 100 talsins. Um helmingur starfsmanna í verslun og þjónustufyrirtækjum fór ekki í viðtal á árinu 2015.

Óbreytt vinnuvika félagsmanna

Lengd vinnuvikunnar hjá félagsmönnum er nánast óbreytt frá því í fyrra og er nú að meðaltali 43,7 stundir. Á árunum fyrir hrun var vinnuvikan lengst árið 2007, 45 stundir að meðaltali, en var 43,3 stundir árið 2009. Stjórnendur vinna lengstu vinnuvikuna, 46 stundir að meðaltali en skrifstofufólk skemmst, 41,4 stundir. Vinnutíminn er lengstur í verslun og fyrirtækjum í þjónustu.

Starfsmenn í stærri fyrirtækjum vinna lengri vinnuviku en starfsmenn minni fyrirtækja, í stærstu fyrirtækjunum, þar sem vinna 100 eða fleiri, er vinnuvikan 44,1 stund en 42,9 þar sem hún er styst, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru á bilinu 10 – 19 talsins.

Tæplega 40% svarenda í könnuninni vinna fjarvinnu sem er svipað og síðustu ár. Þeir vinna hins vegar færri tíma en nokkru sinni fyrr, 5,8 stundir á viku að meðaltali á móti 10,4 stundum árið 2011 en það var það hæsta sem mælst hefur. Mest er um fjarvinnu í hópi stjórnenda (58%) og sérfræðinga (56%).

Meiri ánægja með launakjör

Ánægja með launakjör heldur áfram að aukast og eru 54% svarenda ánægð með launin. Á árunum 2010 til ársins 2015 voru mest 50% svarenda ánægð og minnst 43%. Karlar eru ánægðari en konur og hefur svo verið undanfarin ár. Ánægjan er meiri í minni fyrirtækjum en þeim stærri sem er þvert á launin sem eru hærri í stærri fyrirtækjum að meðaltali.

Hlunnindi algengari í stærri fyrirtækjum

Átta af hverjum tíu svarendum eru með einhver hlunnindi í sínum launum. Flestir fá greiddan símakostnað (49%) og hafa aldrei verið fleiri), líkamsræktarstyrk (46%) eða gsm síma (44%).

Hlunnindi eru algengari í stærri fyrirtækjum en þeim smærri, 85-86% starfsmanna í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 100 eða fleiri fá hlunnindi en um 70% starfsmanna í fyrirtækjum þar sem vinna færri en 20 starfsmenn. Níu af hverjum tíu stjórnendum og sérfræðingum og ríflega það, eru með hlunnindi af einhverju tagi á sínum vinnustað

Allar niðurstöður